Það vakti gríðarlega athygli í gær þegar byrjunarlið Manchester United gegn Manchester City var opinbert að Alejandro Garnacho og Marcus Rashford voru ekki í hópnum.
Félagið hefur alltaf tilkynnt vel fyrir leik hverjir geta ekki tekið þátt ef um meiðsli sé að ræða en ekkert var gefið út varðandi þá tvo.
Rúben Amorim, stjóri liðsins, hefur ekki verið ánægður með þá utan vallar.
„Það er mikilvægt að það komi fram að þeir voru ekki í agabanni. Ég myndi segja það ef svo væri og það væri stærra vandamál," sagði Amorim.
„Næsta vika, næsti leikur, nýtt líf. Frammistaðan á æfingum og í leikjum er mikilvæg fyrir mér, hvernig þú klæðir þig, hvernig þú borðar og þátttaka með öðrum liðsfélögunum. Það er allt mikilvægt þegar þú vilt breyta miklu."
„Þegar fólk í félaginu er að missa vinnuna verðum við að hækka ránna mikið og þeir verða því að berjast fyrir sæti sínu í liðinu. Liðið sannaði í dag að við getum skilið hvern sem er eftir og unnið samt ef við vinnum saman. Ef þeir æfa vel verðum við miklu betri með þeim því þeir eru svo hæfileikaríkir. Þeir verða að leggja hart að sér," sagði Amorim að lokum.
Athugasemdir