Það voru nokkrir Íslendingar sem komu við sögu í leikjum dagsins víða um Evrópu í dag, bæði í karla- og kvennaflokki.
Ágúst Eðvald Hlynsson og Ægir Jarl Jónasson voru í byrjunarliði AB sem gerði 3-3 jafntefli gegn Helsingör í þriðju efstu deild danska boltans.
AB er í efri hlutanum með 28 stig eftir 20 umferðir, ellefu stigum á eftir toppliði Fremad Amager.
Helgi Fróði Ingason fékk þá að spreyta sig í 2-2 jafntefli Helmond gegn Eindhoven FC í næstefstu deild hollenska boltans. Helgi fékk að spila síðasta hálftíma leiksins og situr Helmond áfram um miðja deild, sex stigum frá umspilssæti.
Í fjórðu efstu deild á Englandi var Jason Daði Svanþórsson í byrjunarliði Grimsby sem lagði Colchester að velli. Jason Daði er mikilvægur hlekkur í liði Grimsby og spilaði allan leikinn á hægri kanti til að hjálpa sínum mönnum að næla í dýrmæt stig.
Liðin mættust í hörkuslag í umspilsbaráttunni og er Grimsby með 62 stig eftir 39 umferðir, þegar aðeins fimm umferðir eru eftir af venjulega deildartímabilinu. Grimsby situr í umspilssæti sem stendur, fjórum stigum fyrir ofan Colchester.
Jason Daði og félagar eru aðeins tveimur stigum frá AFC Wimbledon sem situr í þriðja sæti deildarinnar með leik til góða. Þriðja sætið veitir sjálfkrafa þátttökurétt í League One, þriðju efstu deild, á næstu leiktíð.
Brescia sigraði þá gegn Spezia í Serie B á Ítalíu en Birkir Bjarnason var ekki í hóp, ekki frekar en hinn efnilegi Nóel Atli Arnórsson sem var meiddur og tók því ekki þátt í stóru tapi AaB í efstu deild danska boltans.
Brescia er tveimur stigum frá fallsæti eftir þennan sigur og sex stigum frá umspilssæti í afar jafnri B-deild. Álaborg er í neðri hluta dönsku deildarinnar, fjórum stigum fyrir ofan fallsvæðið.
Lærisveinar Milos Milojevic í Al-Wasl unnu 2-0 á heimavelli og eru í fimmta sæti deildarinnar í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Al-Wasl er þar með 30 stig eftir 19 umferðir, heilum ellefu stigum frá sæti í Meistaradeild Asíu.
Í kvennaboltanum sigraði Club Brugge gegn Gent þegar liðin mættust í lokaumferð efstu deildar kvenna í Belgíu. Lára Kristín Pedersen er á mála hjá Club Brugge sem endar í fjórða sæti deildarinnar fyrir tvískiptingu. Lára og stöllur munu því keppa í fjögurra liða efri hluta, en þær eru sextán stigum á eftir toppliði Leuven sem á leik til góða.
Iris Omarsdottir var þá á sínum stað í byrjunarliði Stabæk sem tapaði gegn Brann í efstu deild norska boltans. Liðin mættust í 2. umferð tímabilsins og er Brann með sex stig, Stabæk með þrjú.
Að lokum skoraði Brenna Lovera annað marka Glasgow City í sigri gegn Celtic í skoska kvennaboltanum. Glasgow deilir toppsætinu með Hibernian sem stendur, þar sem bæði lið eiga 57 stig en Hibernian er með leik til góða.
Rangers er í þriðja sæti, tveimur stigum á eftir Glasgow og með leik til góða.
Karlar
Helsingor 3 - 3 AB
Eindhoven 2 - 2 Helmond
Colchester 1 - 2 Grimsby
Spezia 0 - 1 Brescia
AaB 0 - 4 Viborg
Al-Wasl 2 - 0 Ajman
Konur
Stabæk 0 - 1 Brann
Gent 0 - 1 Club Brugge
Celtic 1 - 2 Glasgow City
Athugasemdir