Carlo Ancelotti þjálfari Real Madrid fer fyrir dóm í Madríd í næstu viku vegna meintra skattsvika.
Skattsvikin eru sögð nema rétt rúmri einni milljón evra og vill ákæruvaldið láta dæma þjálfarann til fjögurra ára og níu mánaða fangelsisvistar. Auk þess er krafist að Ancelotti greiði þrjár milljónir evra í sekt.
Ancelotti er sakaður um að hafa vísvitandi sleppt því að greiða hluta skatta sinna árin 2014 og 2015 en hefur þegar skilað því sem hann skuldaði með vöxtum og öðrum gjöldum. Í heildina endurgreiddi Ancelotti rúmlega 1,2 milljónir evra, þar af 200 þúsund evrur í vexti og gjöld.
Ákæruvaldið segist vera með sannanir fyrir því að Ancelotti hafi vísvitandi falið greiðslur sem bárust honum vegna ímyndarréttar hans. Ancelotti segist hafa falið öðrum aðilum að sjá um þessi mál fyrir sig, en ákæruvaldið telur það vera afsökun hjá þjálfaranum - hann hafi í raun látið gera þetta viljandi til að forðast skattinn.
Ancelotti er sakaður um að hafa falið greiðslurnar í gegnum hillufélög og bankareikninga í skattaskjólum. Með þessum hætti birtust greiðslurnar ekki í skattskýrslu þjálfarans árin 2014 og 2015.
Réttarhöldin fara fram á miðvikudaginn og gæti niðurstaða dómsins orðið söguleg í baráttu spænskra yfirvalda gegn skattsvikum og undanskotum. Þá gæti þetta mál breytt því að stórum hluta hvernig fótboltamenn og þjálfarar haga fjárhagsmálum sínum.
Ancelotti hefur nýlega verið orðaður við þjálfarastarfið hjá brasilíska landsliðinu, en segist ekki vilja yfirgefa Madríd. Sú skoðun gæti breyst ef illa gengur í réttarhöldunum.
Athugasemdir