Brasilía er búið að reka landsliðsþjálfarann sinn Dorival Júnior úr starfi eftir 4-1 tap gegn Argentínu í undankeppni Suður-Ameríkuþjóða fyrir HM.
Brasilíska liðið sá ekki til sólar gegn Argentínu en er þó í góðri stöðu í undankeppni fyrir HM, með 21 stig eftir 14 umferðir.
Dorival er 62 ára gamall og hefur komið víða við á þjálfaraferlinum. Hann hefur unnið titla með Sao Paulo, Flamengo, Athletico Paranaense, Vasco da Gama og fleiri félagsliðum í Brasilíu og tók við stjórn landsliðsins fyrir rúmlega einu ári síðan, í janúar 2024.
Hann stýrði landsliðinu í 16 leikjum á þessum tíma og náði að landa 7 sigrum, en liðið gerði 7 jafntefli og tapaði 2. Sigrarnir voru ekki sérlega sannfærandi þar sem liðið skoraði 25 mörk og fékk 17 á sig.
Varnarleikur liðsins var undir stöðugri gagnrýni og þá tókst Dorival ekki að ná því besta úr stjörnum prýddri sóknarlínu.
Carlo Ancelotti hefur lengi verið orðaður við þjálfarastarfið hjá Brasilíu en hann segist sjálfur vera ánægður hjá Real Madrid og ekki hafa nein áform um að yfirgefa félagið. Hann er samningsbundinn spænsku risunum út næstu leiktíð.
Brasilískir fjölmiðlar telja Jorge Jesus, þjálfara Al-Hilal, líklegastan til að taka við landsliðinu á mikilvægum tímapunkti. HM 2026 hefst eftir rúmt ár.
Athugasemdir