Arsenal vill Cunha og Gyökeres - Reijnders á óskalista City - Eriksen gæti snúið aftur til Ajax
   lau 29. mars 2025 10:00
Ívan Guðjón Baldursson
Koundé: La Liga sýndi okkur mikla vanvirðingu
Mynd: EPA
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Barcelona tók á móti Osasuna fyrir helgi og var Jules Koundé á sínum stað í byrjunarliðinu.

Eftir lokaflautið var Koundé spurður spurninga og nýtti varnarmaðurinn öflugi tækifærið til að kvarta undan brjáluðu leikjaálagi, þar sem hann talaði meðal annars um að það væri ótrúlegt að spænsk fótboltayfirvöld hefðu ekki séð sér fært að færa viðureign Barcelona gegn Osasuna á meira viðeigandi dagsetningu.

Leikurinn átti upprunalega að fara fram 8. mars en var frestað vegna skyndilegs andláts liðslæknis Börsunga. Yfirvöld færðu leikinn á fimmtudaginn 27. mars en þá gátu tveir leikmenn Barca ekki tekið þátt vegna landsliðaverkefna í Suður-Ameríku, þeir Raphinha og Ronald Araújo.

„Við erum reiðir yfir dagsetningunni sem þeir létu okkur spila leikinn á. Þetta eru ekki eðlileg vinnubrögð. Við höfum oft rætt um þetta leikjaálag en það virðist sem sumt fólk nái ekki að skilja stöðuna. Þetta er orðið gjörsamlega galið," sagði Koundé eftir sigurinn.

„Ég átta mig á því hversu heppnir við erum að fá að starfa sem fótboltamenn, þetta er draumur margra og ótrúleg forréttindi, en þetta leikjaálag er hættulegt fyrir heilsu leikmanna.

„Það er vanvirðing gagnvart Barcelona og Osasuna að hafa látið spila leikinn á þessari dagsetningu. Það á ekki að skipta máli hvaða félag á í hlut, hvort sem þetta er Barcelona, Osasuna eða Real Madrid. Það er mikil vanvirðing að láta spila leikinn í landsleikjahlénu. Við erum ekki vélar, við erum fólk og við erum að spila á ótrúlega háu stigi. Við þurfum hvíld á milli leikja til að geta spilað svona vel og gefið áhorfendum þá sýningu sem þeir vilja, þetta tekur mikið á líkamann.

„Þetta er eitthvað sem öll fótboltayfirvöld þurfa að skilja og hafa að leiðarljósi í sinni ákvarðanatöku. Það er ekki í lagi að setja frestaða leiki á dagsetningar sem geta stofnað heilsu leikmanna í hættu, þó það henti kannski vel fyrir stjórnendur deildarinnar. Það er ósanngjarnt."


Koundé er 26 ára gamall og hefur verið í lykilhlutverki frá komu sinni til Barcelona fyrir þremur árum. Þá er hann mikilvægur hlekkur í franska landsliðinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner