Leikmenn brasilíska landsliðsins vilja ólmir fá Tite til að taka aftur við sem þjálfari en fótboltasambandið greindi frá því í gær að búið væri að reka Dorival Junior eftir niðurlægjandi 4-1 tap gegn Argentínu í undankeppni HM.
Dorival Junior vann aðeins sjö leiki af sextán með landsliðinu sem er langt frá því að teljast ásættanlegur árangur fyrir sigursælustu þjóð heimsmeistaramótsins.
Hann var látinn fara og er sambandið nú í leit að nýjum þjálfara en flestir leikmenn virðast styðja þá hugmynd að fá Tite aftur í brúna.
Tite stýrði Brasilíumönnum frá 2016 til 2022 og gerði liðið meðal annars að Suður-Ameríkumeisturum árið 2019. Hann er í raun síðasti þjálfarinn til að vinna titil með landsliðnu.
Brasilíski blaðamaðurinn Jorge Nicola segir að margir leiðtogar í landsliðinu hafa kallað eftir að fá Tite aftur og vonast til þess að hann stýri liðinu á HM sem fer fram á næsta ári.
Þó heildarárangur Dorival Junior með landsliðið hafi ekki verið viðundandi að mati sambandsins þá er það samt hársbreidd frá því að tryggja sig inn á HM. Liðið er með 21 stig í 4. sæti.
Liðið mætir næst Ekvador og Paragvæ en tveir sigrar þar fara langleiðina með að tryggja sætið.
Athugasemdir