Mikið hefur verið rætt og ritað um Trent Alexander-Arnold og yfirvofandi félagaskipti hans til Real Madrid á frjálsri sölu frá Liverpool.
Núna er Sky Sports meðal fjölmiðla sem segja að Real Madrid gæti endað á að borga einhverja lága upphæð til að kaupa Trent fyrir samningslok hjá Liverpool.
Samningur bakvarðarins við Liverpool rennur út í lok júní en Real Madrid er að íhuga að fá hann til sín fyrir HM félagsliða sem hefst um miðjan júní og fer fram í Bandaríkjunum.
FIFA hefur breytt félagaskiptareglunum með þeim hætti að sérstakur félagaskiptagluggi opnast 1.-10. júní fyrir félög sem taka þátt í HM félagsliða. Félög geta á þeim tíma keypt leikmenn og skráð þá til leiks fyrir HM.
Félög fá einnig tækifæri til að bæta í mesta lagi tveimur nýjum leikmönnum við leikmannahópana sína á milli 27. júní og 3. júlí.
Þessar reglur auka einnig líkurnar á því að Cristiano Ronaldo finni félagaskipti til að taka þátt í mótinu og veita Lionel Messi samkeppni.
Lokaleikur Liverpool á úrvalsdeildartímabilinu fer fram 25. maí og þá gæti Trent verið valinn í enska landsliðshópinn sem mætir Andorra 7. júní í undankeppni HM og Senegal 10. júní í æfingaleik.
Til gamans má geta að Real Madrid mætir Al-Hilal í fyrstu umferð HM. Sádi-arabíska stórveldið hefur mikinn áhuga á Mohamed Salah og því gætu þessir núverandi liðsfélagar mæst sem andstæðingar á HM í sumar. Trent hjá Real Madrid og Salah hjá Al-Hilal.
Athugasemdir