„Enginn okkar veðjaði á umræddan leik," segir í yfirlýsingu sem leikmenn Þórs sendu frá sér áðan. Í gær birtist frétt þess efnis að vísbendingar væru um að leikmenn Þórs hefðu veðjað á leik sem þeir tóku sjálfir þátt í.
Yfirlýsing leikmanna Þórs vegna fréttar Akureyri vikublaðs 29.01.2014
Alvarlegar ásakanir voru bornar á mig og mína liðsmenn í gær í frétt Akureyri vikublaðs. Til þess að svara þessum orðrómi sem af því er virðist heimildarlaus slúðurfrétt staðfesti ég fyrir hönd allra leikmanna Þórs sem voru á leikskýrslu í umræddum leik við uppeldisfélag mitt Dalvík/Reyni að enginn okkar veðjaði á umræddan leik, hvort sem um úrslit eða önnur atvik leiksins ræðir.
Við leggjum okkur fram við að stunda íþrótt okkar af kappi og standa okkur vel, vera yngri iðkenndum góðar fyrirmyndir og síðast en ekki síst að vera félagi okkar, Íþróttafélaginu Þór og stuðningsmönnum til sóma og bar þessi frétt mikinn skugga á það.
Ég vil miðla til fjölmiðla að vanda vinnubrögð sín og hafa staðfestar heimildir fyrir fréttum sem birtar eru í þessum anda, sem virðast aðeins til þess fallnar að mynda fyrirsagnir og hneyksla almenning.
Fyrir hönd leikmanna meistaraflokks Þórs í knattspyrnu,
Sveinn Elías Jónsson
Fyrirliði Meistaraflokks
Athugasemdir