Leik Íslands og Hollands í undankeppni EM 2016 lauk nú fyrir stuttu með glæsilegum og stórkostlega óvæntum 2-0 sigri okkar Íslendinga. Gylfi Þór Sigurðsson spilaði frábærlega og skoraði 2 mörk og var valinn maður leiksins hér á Fótbolta.net.
Einkunnagjöf íslenska liðsins
Hannes Þór Halldórsson 8
Frábær leikur hjá markmanninum, greip vel inn í allar fyrirgjafir, varði í tvígang einn á einn og stýrði vörninni vel fyrir framan sig.
Theódór Elmar Bjarnason 8
Stórkostlegur í bakverðinum, sendi J.Lens útaf í fýlu þegar um 20.mínútur voru eftir af leiknum. Öll íslenska vörnin vann glæsilega saman í dag.
Kári Árnason 9
Fór bókstaflega ekkert framhjá honum. Margar mikilvægar tæklingar og mikilvægir skallaboltar sem hann vann á ögurstundu. Myndaði stórglæsilegt par með Ragga í hjarta varnarinnar.
Ragnar Sigurðsson 9
Hafði í nægu að snúast með að passa einn sterkasta framherja heims, Robin van Persie. Til að gera langa sögu stutta þá sást sá ágæti maður ekki í leiknum.
Ari Freyr Skúlason 8
Skipt útaf í hálfleik, hafði góðar gætur á Robben í fyrri hálfleik og var öruggur í sínum aðgerðum, líkt og restin af íslensku vörninni.
Emil Hallfreðsson 9
Hvað borðaði maðurinn í morgunmat? Skapaði ALLT fyrir íslenska liðið til að byrja með. Skapandi fram á við og virkilega grimmur til baka einnig.
Aron Einar Gunnarsson 9
Var frábær gegn Lettum á föstudag og hélt sömu frammistöðu í kvöld. Náði að binda miðjuna saman með Gylfa. Þeira passa saman eins og malt og appelsín.
Gylfi Sigurðsson 10
Hvað er hægt að segja um þennan mann? Öruggur alls staðar á vellinum, vinnusamur og skoraði tvö frábær mörk. Myndaði frábært miðjupar með Aroni.
Birkir Bjarnason 8
Gerði vel í að hjálpa til í gjörgæslunni á Arjen Robben. Var með áætlunarferðir upp og niður kantinn, frábær í einu orði sagt.
Jón Daði Böðvarsson 9
Róleg byrjun, en drottinn minn góður hvað hann vann sig vel inn í leikinn, komst í tvígang nánast einn í gegn og virkilega óheppinn að setja ekki mark í þessum leik. Frábært dagsverk hjá Selfyssingnum.
Kolbeinn Sigþórsson 8
Framherjinn átti glæsilegan leik, hann og Jón Daði virka vel saman og mikil hætta sem skapaðist af Kolla í dag.
Varamenn
Birkir Már Sævarsson(’45) 8
Kemur inn á í seinni hálfleik og heldur uppteknum hætti Ara í bakvarðarstöðunni.
Athugasemdir