Man Utd eflir leit sína að liðsstyrk - David ofarlega á blaði - Ítölsk félög vilja Greenwood - Liverpool vill Olise
banner
   mið 05. júní 2024 16:21
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Hrósar viðbrögðum leikmannanna tveggja - „Óásættanlegt og við hörmum þessi leiðindamistök"
,,Vonandi verður þetta til þess að við lögum þessa verkferla hjá okkur"
Icelandair
Jörundur Áki Sveinsson.
Jörundur Áki Sveinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Selma Sól var í byrjunarliðinu í gær.
Selma Sól var í byrjunarliðinu í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Kristín Dís Árnadóttir.
Kristín Dís Árnadóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Sem betur fer komum við vel út úr þessum glugga.'
'Sem betur fer komum við vel út úr þessum glugga.'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Selma í leiknum í gær.
Selma í leiknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Upp kom mjög leiðinlegt atvik síðasta föstudag þegar tveir leikmenn í íslenska landsliðshópnum voru ekki skráðar í leikmannahópinn fyrir leikinn gegn Austurríki. Þær Selma Sól Magnúsdóttir og Kristín Dís Árnadóttir þurftu að horfa á leikinn úr stúkunni, máttu ekki vera þátttakendur í leiknum.

Þetta eru mistök sem eiga ekki að koma fyrir. Mannleg mistök sagði í tilkynningu KSÍ skömmu fyrir leikinn. Sem betur fer fyrir alla náðust viðunandi úrslit í Austurríki, 1-1 jafntefli var niðurstaðan.

Selma var svo komin í byrjunarliðið í gær þegar Ísland lagði Austurríki að velli, 2-1 urðu lokatölur á Laugardalsvelli.


Fótbolti.net ræddi við Jörund Áka Sveinsson í dag. Jöri er yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ. Er þetta eitthvað sem getur ekki komið fyrir aftur?

„Ég held það sé ekki hægt að útiloka að svona komi ekki fyrir aftur, þetta eru bara mannleg mistök. Við höfum verið að skoða þetta núna. Við ákváðum að reyna láta þetta hafa eins lítið áhrif á liðið og leikina sjálfa og hægt var. Auðvitað var þetta afskaplega leiðinlegt fyrir alla hlutaðeigandi, bæði leikmennina, liðið, þjálfarateymið og ekki síður starfsfólk sambandsins sem eiga í hlut. Við höfum verið að skoða hjá okkur hvernig við komum í veg fyrir svona og farið yfir okkar verkferla. Þetta er líka áminning fyrir hin landsliðin okkar. Þetta er alveg gríðarlega óheppilegt og leiðinlegt. Við breytum þessu ekki, en vonandi verður þetta til þess að við lögum þessa verkferla hjá okkur og að þetta komi ekki fyrir aftur."

Er einhver ástæða fyrir því að þessar tvær - Kristín og Selma, Selma var í leikmannahópnum í leiknum á undan en Kristín var það ekki - er bara tilviljun að þetta voru þær tvær sem voru ekki í hópnum?

„Bara algjör tilviljun, ekkert annað en bara tilviljanir þarna sem orsaka að þessar tvær eru utan hóps. Þetta er náttúrulega óásættanlegt og við hörmum þessi leiðindamistök. Sem betur fer komum við vel út úr þessum glugga. Ég vil sérstaklega hrósa þessum tveimur leikmönnum fyrir hvernig þær brugðust við, sýndu gríðarlegan karakter og sterkan liðsanda í þessum leiðindum. Við lítum málið alvarlegum augum og ætlum að sjá til þess að þetta komi ekki fyrir aftur."

Hvað þarf að gera? Þurfa fleiri að lesa yfir einhver skjöl áður en þau eru send frá ykkur? Er eitthvað svoleiðis sem þarf að gera?

„Það er það sem við erum að skoða, hvernig við komum í veg fyrir þetta. Án þess að ég fari eitthvað djúpt í það, við erum að fara mjög rækilega yfir þetta núna. Við kláruðum verkefnið í gær og dagurinn í dag hefur farið í að fara yfir stöðuna. Við erum að byrja að skoða hvernig við lögum þetta. Það eru verk næstu daga að kafa dýpra í það og sjá til þess að þetta komi ekki fyrir aftur," sagði Jöri að lokum.
Athugasemdir
banner