Man Utd eflir leit sína að liðsstyrk - David ofarlega á blaði - Ítölsk félög vilja Greenwood - Liverpool vill Olise
banner
   mán 03. júní 2024 16:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Auðvitað gríðarleg vonbrigði fyrir þær og bara vont mál"
Kemur ekki fyrir aftur
Icelandair
Kristín Dís Árnadóttir.
Kristín Dís Árnadóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Selma Sól Magnúsdóttir.
Selma Sól Magnúsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, segir að það hafi verið farið yfir þau mistök sem voru gerð fyrir leikinn gegn Austurríki í undankeppni EM í síðustu viku. Hann vonast til þess að slík mistök komi alls ekki fyrir aftur.

Fyrir leikinn út í Austurríki kom upp klaufamál hjá íslenska teyminu því það gleymdist að skrá Selmu Sól Magnúsdóttur og Kristínu Dís Árnadóttur á leikskýrslu svo þeim var vísað upp í stúku. Austurríki var með fullan hóp en Ísland ekki út af þessum mistökum.

Afskaplega klaufalegt og eitthvað sem á ekki að koma fyrir, hvað þá sérstaklega í leik sem hefur svo mikla þýðingu. Eiginlega bara óafsakaanlegt.

„Þetta eru hlutir sem við þurfum að setjast yfir. Þetta er allt klárt held ég og ég á ekki von á því að þetta komi fyrir aftur. Við vonum það að við búum til það sterkar vinnureglur í kringum þetta að svona hlutir komi alls ekki fyrir aftur," sagði Steini.

Það var afskaplega leiðinlegt fyrir Selmu og Kristínu að sitja upp í stúku eftir að hafa tekið þátt í öllum undirbúningnum fyrir leikinn og möguleikarnir á bekknum urðu færri.

„Þetta voru auðvitað gríðarleg vonbrigði fyrir þær og bara vont mál. Það var ekkert hægt að gera eftir á. Þetta var eitthvað sem við þurftum að díla við. Auðvitað var þetta slæmt fyrir þær og líka fyrir okkur. En þetta gerðist og við getum ekkert breytt því á þessari stundu. Við lifum með því að þetta var svona í þetta skiptið og þetta kemur ekki fyrir aftur," sagði landsliðsþjálfarinn jafnframt.

Ísland og Austurríki mætast aftur á morgun, en leikurinn hefst 19:30 og fer fram á Laugardalsvelli.
Athugasemdir
banner
banner