mið 09. nóvember 2022 22:12
Brynjar Ingi Erluson
Enski deildabikarinn: Liverpool og Man City áfram - Arsenal, Chelsea og Tottenham úr leik
Brighton er komið áfram
Brighton er komið áfram
Mynd: EPA
Jesse Lingard skoraði og lagði upp í sigri á Tottenham
Jesse Lingard skoraði og lagði upp í sigri á Tottenham
Mynd: EPA
Julian Alvarez skoraði gegn Chelsea
Julian Alvarez skoraði gegn Chelsea
Mynd: EPA
Caomhin Kelleher varði þrjú víti í vítakeppninni gegn Derby
Caomhin Kelleher varði þrjú víti í vítakeppninni gegn Derby
Mynd: EPA
Norður-Lundúnaliðin Arsenal og Tottenham eru úr leik í enska deildabikarnum árið eftir að hafa tapað í þriðju umferð keppninnar í kvöld. Man City vann Chelsea, 2-0, á meðan Liverpool hafði betur gegn Derby County í vítakeppni, 3-2.

Arsenal tapaði fyrir Brighton, 3-1, á Emirates-leikvanginum. Það var Arsenal sem tók forystuna á 20. mínútu. Eddie Nketiah skoraði þá með góðu skoti eftir undirbúning frá Reiss Nelson.

Brighton jafnaði stuttu síðar með marki úr vítaspyrnu. Karl Hein, markvörður Arsenal, hljóp út í Danny Welbeck og ætlaði að koma í veg fyrir skot, en braut á Welbeck og vítaspyrna dæmd. Welbeck skoraði sjálfur úr vítinu gegn sínu gamla félagi.

Nketiah gat komið Arsenal yfir í byrjun síðari hálfleiks en tilraun hans hafnaði í stöng. Níu mínútum síðar komst Brighton yfir í gegnum varamanninn Kaoru Mitoma eftir sendingu frá Sarmiento.

Tariq Lamptey gerði síðan út um leikinn þegar tuttugu mínútur voru eftir. Billy Gilmour kom boltanum í gegn á Lamptey sem skoraði þriðja og síðasta mark Brighton í leiknum. Lokatölur 3-1 og Arsenal úr leik.

Tottenham er einnig úr leik eftir 2-0 tap fyrir Nottingham Forest á City Ground.

Forest var sterkari aðilinn í byrjun fyrri hálfleiks og skapaði sér nokkur fín færi. Taiwo Awonyi átti skot í stöng á níundu mínútu og var liðið í fínum gír en Tottenham náði að vinna sig betur inn í hálfleikinn. Staðan markalaus í hálfleik en það var Forest sem komst yfir í byrjun þess síðari.

Renan Lodi með laglegt skot eftir sendingu frá Jesse Lingard og það var svo Lingard sem gerði annað marki stuttu síðar eftir sendingu frá Sam Surridge. Orel Mangala var rekinn af velli með sitt annað gula spjald þegar fimmtán mínútur voru eftir en Tottenham gat ekki nýtt sér það og lokatölur 2-0 fyrir Forest.

Newcastle United er komið áfram í næstu umferð eftir að hafa unnið Crystal Palace í vítakeppni. Staðan var markalaus eftir venjulegan leiktíma. Newcastle skoraði úr þremur spyrnum en Palace aðeins úr tveimur.

Southampton komst einnig áfram eftir sigur á Sheffield Wednesday í vítaspyrnukeppni. Joshua Windass kom Wednesday yfir á 24. mínútu en James Ward-Prowse jafnaði úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks. Bæði lið skoruðu úr fyrstu fimm vítaspyrnunum í vítakeppninni en í bráðabana hafði Southampton betur, 6-5.

Blackburn Rovers vann West Ham í vítakeppni Staðan var jöfn, 2-2, eftir venjulegan leiktíma. Ben Brereton Diaz jafnaði undir lokin til að tryggja vítakeppni og fór það svo að Blackburn vann vítakeppnina, 10-9.

Boubacar Traore tryggði Wolves 1-0 sigur á Leeds. Hann kom inn af bekknum í síðari hálfleik og gerði sigurmarkið fimm mínútum fyrir leikslok.

Manchester City lagði Chelsea að velli, 2-0. Chelsea fékk urmul af færum gegn Englandsmeisturunum en náðu engan veginn að nýta sér þau.

Riyad Mahrez og Julian Alvarez sáu til þess að Man City færi áfram í næstu umferð með tveimur mörkum á fimm mínútna kafla í byrjun síðari hálfleiks. Man City er því komið í fjórðu umferð keppninnar.

Liverpool fer áfram í 4. umferð bikarsins eftir að hafa unnið Derby County í vítaspyrnukeppni. Jürgen Klopp stillti upp fremur ungu liði gegn Derby en liðið náði ekki að klára leikinn eftir venjulegan leiktíma.

Lið Derby var þétt og átti Liverpool erfitt með að opna liðið af einhverju viti. Alex Oxlade-Chamberlain átti nokkur fínustu skot en gat ekki stýrt því í netið.

Caomhin Kelleher, markvörður Liverpool, var síðan hetjan í vítakeppninni og varði þrjú víti. Harvey Elliott skoraði úr fimmta víti Liverpool og tryggði 3-2 sigur í vítakeppninni.

Úrslit og markaskorarar:

Arsenal 1 - 3 Brighton
1-0 Edward Nketiah ('20 )
1-1 Danny Welbeck ('27 , víti)
1-2 Kaoru Mitoma ('58 )
1-3 Tariq Lamptey ('71 )

Newcastle 0 - 0 Crystal Palace (3-2 eftir vítakeppni)

Nott. Forest 2 - 0 Tottenham
1-0 Renan Lodi ('50 )
2-0 Jesse Lingard ('57 )
Rautt spjald: Orel Mangala, Nott. Forest ('75)

Southampton 1 - 1 Sheffield Wed (6-5 eftir vítakeppni)
0-1 Josh Windass ('24 )
1-1 James Ward-Prowse ('45 , víti)

West Ham 2 - 2 Blackburn (9-10 eftir vítakeppni)
0-1 Jack Vale ('6 )
1-1 Pablo Fornals ('38 )
2-1 Michail Antonio ('78 )
2-2 Ben Brereton ('88 )

Wolves 1 - 0 Leeds
1-0 Boubacar Traore ('85 )

Liverpool 0 - 0 Derby County (3-2 eftir vítakeppni)

Manchester City 2 - 0 Chelsea
1-0 Riyad Mahrez ('53 )
2-0 Julian Alvarez ('58 )
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner