Framarinn Hlynur Atli Magnússon hefur lagt skóna á hilluna eftir farsælan feril en þetta kemur fram í tilkynningu frá knattspyrnudeild Fram í dag.
Hlynur, sem er 33 ára gamall, spilaði stærstan hluta ferilsins sem miðvörður og á miðju.
Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik í 1-0 sigri Fram á Grindavík í VISA-bikarnum fyrir fimmtán árum og hefur síðan þá spilað 273 leiki fyrir félagið sem gerir hann að tíunda leikjahæsta leikmanni í sögu Fram.
Einnig tók hann eitt tímabil með Þór á Akureyri og eitt með Floro í Noregi áður en hann snéri aftur í Fram.
Frá 2019 til 2023 gegndi hann hlutverki fyrirliða hjá Fram. Hann var í liðinu sem fór taplaust í gegnum Lengjudeildina árið 2021 og setti um leið stigamet.
Meiðsli hafa hrjáð Hlyn á síðustu misserum og batinn ekki orðið sem skyldi og hefur hann því tekið ákvörðun um að leggja skóna á hilluna. Hann lék aðeins einn leik á þessu tímabili er hann kom inn af bekknum í 3-0 sigri á ÍH í bikarnum.
Framarinn spilaði þrjá landsleiki fyrir yngri landslið Íslands, þar af einn fyrir U21 árs landsliðið.
„Hlynur Atli hefur einnig verið mikilvægur félagsmaður, þjálfað yngri flokka Fram og verið góð fyrirmynd fyrir komandi kynslóðir. Hann hefur sýnt einstaka hæfileika með því að spila nánast allar stöður á vellinum og hefur leyst þær með prýði.
„Við erum óendanlega þakklát fyrir allt sem Hlynur Atli hefur gert fyrir Fram. Hans hollusta, dugnaður og ástríða fyrir fótboltanum mun lifa áfram í hjörtum okkar allra. Við óskum honum alls hins besta í framtíðinni og vonumst til að sjá hann áfram sem hluta af Fram fjölskyldunni.
„Takk fyrir allt Hlynur Atli Magnússon! Takk fyrir að vera hluti af Fram,“ var skrifað í tilkynningu Fram á Facebook.
Athugasemdir