Kvaratskhelia orðaður við Man Utd og Liverpool - Moyes fyrsti kostur Everton - Man Utd blandar sér í baráttuna um Mbeumo
   mið 19. apríl 2017 13:38
Magnús Már Einarsson
Elísa með slitið krossband - Ekki með á EM
Þriðja landsliðskonan á árinu sem slítur krossband
Elísa Viðarsdóttir.
Elísa Viðarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Elísa Viðarsdóttir, varnarmaður Vals og íslenska landsliðsins, er með slitið krossband í hné og ljóst er að hún verður ekki meira með á þessu ári.

Ljóst er að Elísa verður ekki með íslenska landsliðinu á EM í Hollandi né með Val í Pepsi-deildinni í sumar.

„Þetta er þungt högg en þessi spil eru lögð á borðið núna og við þurfum að spila úr því," sagði Elísa við Fótbolta.net í dag.

Elísa varð fyrir meiðslunum í vináttuleik Íslands og Hollands í síðustu viku og í dag fékkst staðfest að krossbandið er slitið.

„Mig grunaði strax að þetta væri eitthvað alvarlegt en ég hélt alltaf í vonina að þetta hefði frekar verið liðbönd eða liðþófi sem hefðu gefið sig," sagði Elísa sem mun núna styðja við bakið á liðsfélögum sínum í Val og landsliðinu utan vallar í sumar.

„Það þýðir ekkert annað. Ég verð stuðningsmaður númer eitt. Það er engin spurning," bætti Elísa við en hún spilaði fimm leiki af átta í vörn Íslands í undankeppni EM.

Dóra María Lárusdóttir, liðsfélagi Elísu í íslenska landsliðinu og Val, sleit einnig krossband á hné með landsliðinu í leik á Algarve mótinu í síðasta mánuði. Sandra María Jessen sleit fremra krossband á sama móti sem þýðir styttri fjarveru og hún gæti ennþá náð EM.

Elísa er einnig þriðji leikmaður Vals sem slítur krossband fyrir tímabilið en auk hennar og Dóru Maríu þá varð Mist Edvardsdóttir fyrir samskonar meiðslum í vetur.
Athugasemdir
banner
banner
banner