Magni Fannberg er hættur sem yfirmaður fótboltamála hjá Start í Noregi en þetta var tilkynnt fyrr í dag.
Magni hefur verið í starfinu í tvö tímabil en þar áður starfaði hann hjá Brommapojkarna, Brann og AIK.
Það hefur verið ansi mikið rugl í gangi hjá Start að undanförnu. Start á í miklum fjárhagsörðugleikum og var dæmt úr leik í umspilinu um sæti í efstu deild þar sem heimavöllur liðsins var ekki leikfær.
Í stað þess að hafa kveikt á hitanum undir vellinum var ákveðið að spara peninginn. Ástandið hjá félaginu er því nokkkuð eldfimt þessa dagana - og hefur verið í talsverðan tíma.
Ole Magnus Skisland, stjórnarformaður Start, segir að það hafi ekki verið sameiginlegt traust á milli aðila og því hafi ekki verið hægt að halda samstarfinu áfram. Samningur Magna átti að klárast á næsta ári, 2024.
Magna er þakkað fyrir sín störf í þágu félagsins en hann hefur sjálfur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann tjáir sig um viðskilnaðinn.
„Óróinn og klofningurinn sem nú einkennir IK Start gerir mér ómögulegt að gegna starfi íþróttastjóra áfram. Mér finnst nærvera mín hjálpa til við að viðhalda óróleikanum í félaginu og hugsanlega einnig styrkja hann. Ég er því ekki góð starfskraftur fyrir klúbbinn núna. Ég einfaldlega get ekki lifað við þetta," skrifar Magni og skýtur þar á stjórnendur félagsins.
Hann segir að sinn metnaður hafi verið að hjálpa liðinu að komast upp í norsku úrvalsdeildina en það tókst ekki, og ekki var hægt að sakast við árangurinn innan vallar.
„Skilyrðin eru ekki fyrir hendi fyrir félagið að njóta góðs af sérfræðiþekkingu minni og skuldbindingu," segir Magni jafnframt.
Takk ???????? pic.twitter.com/SKuGZ39cdP
— Magni Fannberg (@Fannberg) December 20, 2023
Athugasemdir