Jason Daði Svanþórsson skoraði mikilvægt mark í 2-1 sigri Grimsby Town á Harrogate í ensku D-deildinni í dag sem var annað mark hans í deildinni á þessu tímabili.
Mosfellingurinn skoraði annað mark liðsins á 74. mínútu eftir undirbúning frá hinum 19 ára gamla Jayden Luken.
Markið reyndist gríðarlega mikilvægt því gestirnir minnkuðu muninn í restina í 2-1 og var því mark Jasonar sigurmark leiksins.
Þetta var annað deildarmark hans og það þriðja sem hann skorar í öllum keppnum, en Grimsby er í 8. sæti með 34 stig eftir 22 deildarleiki.
Willum Þór Willumsson var einn af bestu mönnum Birmingham sem lagði Burton að velli, 2-0, í ensku C-deildinni. Hann átti stóran þátt í öðru marki liðsins hann kom boltanum fyrir markið sem fór þaðan af varnarmanni og í bakið á markverði Burton og í netið.
Blikinn fær 7 í einkunn frá Birmingham Mail en aðeins tveir leikmenn voru með hærri einkunn.
Alfons Sampsted var ekki með Birmingham vegna meiðsla en liðið hefur nú endurheimt toppsætið á ný og er nú stigi á undan Wycombe Wanderers og með leik til góða.
Jón Daði Böðvarsson var ekki í hópnum hjá Wrexham sem vann Blackpool, 2-1. Þetta var þriðji leikurinn í röð þar sem hann er ekki með en hann er með samning sem rennur út um áramótin.
Wrexham er í 3. sæti með 45 stig, þremur stigum frá toppliði Birmingham.
Birkir Bjarnason kom þá inn af bekknum er Brescia gerði 3-3 jafntefli við Modena í ítölsku B-deildinni. Brescia er í 13. sæti með 22 stig.
Athugasemdir