Fótboltafréttamaðurinn Fabrizio Romano greinir frá því að Carlos Corberán muni taka við stjórnartaumunum hjá Valencia eftir að Rúben Baraja var rekinn í gær.
Quique Sanchez Flores þótti líklegastur í starfið hjá Valencia en félagið var snöggt að athafna sig til að krækja í Corberán.
Stjórnendur Valencia settu sig í samband við West Brom og samþykktu að borga upp riftunarákvæðið í samningi Corberán, sem hljóðaði upp á 3 milljónir evra.
Corberán mun því skrifa undir hjá Valencia í dag og vera kynntur sem nýr þjálfari liðsins í kjölfarið.
Corberán, sem hefur verið orðaður við ýmis úrvalsdeildarstörf í haust, er búinn að gera flotta hluti við stjórnvölinn hjá West Brom en hann hefur meðal annars þjálfað Olympiakos og Huddersfield Town á ferlinum.
Hann tekur við Valencia í botnbaráttu spænsku deildarinnar með 12 stig eftir 17 umferðir.
Corberán er ekki nema 41 árs gamall og skilur hann West Brom í sjöunda sæti Championship deildarinnar, í harðri umspilsbaráttu með 35 stig eftir 22 umferðir.
Athugasemdir