Argentínski varnarmaðurinn Lucas Martínez Quarta gæti verið á förum frá ítalska félaginu Fiorentina í næsta mánuði en hann er í viðræðum við River Plate í heimalandinu.
Martínez er 28 ára gamall miðvörður sem er að spila sitt fimmta tímabil með Fiorentina, sem íslenski landsliðsmaðurinn Albert Guðmundsson leikur með.
Á þessum tíma hefur hann tvisvar farið í úrslit Sambandsdeildar Evrópu og einu sinni í úrslit ítalska bikarsins.
Samkvæmt blaðamanninum Cesar Luis Merlo gæti Martínez verið á leið aftur heim í River Plate. Martínez hefur að sögn Merlo gefið græna ljósið og er nú beðið eftir að félögin nái samkomulagi um kaupverð.
Fiorentina hafnaði fyrsta tilboði í Martínez en stjórnarmenn River eru er bjartsýnir á að samkomulag náist á næstu dögum.
Martínez á 15 landsleiki að baki fyrir argentínska landsliðið og var meðal annars í hópnum sem vann Copa America í sumar.
Athugasemdir