Rodrygo, leikmaður Real Madrid og brasilíska landsliðsins, hafnaði myndarlegu tilboði frá enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester City í sumar.
Spænskir miðlar voru duglegir að dæla út fréttum um Rodrygo og mögulega brottför hans.
Koma Kylian Mbappe hafði áhrif á leikmanninn og virtist það hafa gleymst að hann átti stóran þátt í að liðið vann La Liga og Meistaradeildina.
Rodrygo skoraði 18 mörk og gaf 9 stoðsendingar á síðasta tímabili, en hann gat farið annað í sumar.
Relevo segir að Rodrygo hafi verið óánægður með umfjöllun sumarsins og glímdi þá við persónuleg vandamál sem skapaði pirring í kringum hann. Tilboðið frá Man City var lokkandi, en þrá Brasilíumannsins var að spila fyrir Real Madrid.
Real Madrid var einnig ákveðið í að halda honum en það sér hann sem lykilmann í framtíðinni.
Á þessu tímabili hefur hann skorað 6 mörk og gefið 4 stoðsendingar fyrir Madrídinga en þessi öflugi kantmaður er samningsbundinn félaginu til 2028.
Athugasemdir