Enzo Maresca, stjóri Chelsea á Englandi, hefur komið úkraínska landsliðsmanninum Mykhailo Mudryk til varnar en hann var gagnrýndur fyrir að hafa mætt á hnefaleikabardaga í Sádi-Arabíu á dögunum.
Mudryk hefur ekkert komið við sögu hjá Chelsea í síðustu átta leikjum og má ekki spila í augnablikinu eftir að hafa fallið á lyfjaprófið.
Í blóðinu fannst efnið Meldonium en það er notað við hjarta- og taugasjúkdómum. Annað sýni úr lyfjaprófinu var hreint og bíður Chelsea og Mudryk nú eftir frekari niðurstöðum í þessu máli.
Úkraínumaðurinn mætti á dögunum á hnefaleikabardaga Oleksandr Usyk og Tyson Fury í Riyadh í Sádi-Arabíu, en hann var þar mættur að styðja samlanda sinn sem vann bardagann gegn Fury. Maresca sér ekkert að því að Mudryk aftengi sig aðeins á meðan hann bíður eftir frekari svörum varðandi framtíðina.
„Á þessu augnabliki er líka gott fyrir hann að geta aftengt sig aðeins frá stöðunni. Síðast þegar ég talaði við hann reyndi ég að sýna honum stuðning minn og núna erum við bara að bíða,“ sagði Maresca.
Athugasemdir