Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   mið 25. desember 2024 11:00
Brynjar Ingi Erluson
Er Heung-Min Son til sölu?
Mynd: EPA
Heung-Min Son, fyrirliði Tottenham, gæti verið seldur frá félaginu næsta sumar en þetta segir suður-kóreski miðillinn Maeil Business Newspaper.

Son er 32 ára gamall framherji sem hefur verið á mála hjá Tottenham frá 2015.

Á níu árum hans hjá félaginu hefur hann skorað 169 mörk í 428 leikjum og tók við fyrirliðabandinu er Hugo Lloris yfirgaf félagið á síðasta ári.

Samningur Son rennur út eftir þetta tímabil en Tottenham á möguleikann á að framlengja samninginn til 2026. Líklegasta niðurstaðan er að Tottenham nýti ákvæðið og nái þannig að vernda virði leikmannsins.

Ítalski blaðamaðurinn Fabrizio Romano sagði á GiveMeSport að það kæmi til greina að selja hann næsta sumar ef Tottenham nær ekki samkomulagi við hann um nýjan samning.

Son hefur borið liðið á herðum sér síðustu ár og væri mikið áfall fyrir félagið að missa hann á þessum tímapunkti.

Harry Kane, sem var samherji Son hjá Tottenham, sagði á dögunum að ef hann mætti velja einn leikmann frá Tottenham til að koma að spila með honum hjá Bayern og þá væri það Son, en þeir tveir náðu einkar vel saman hjá Lundúnafélaginu.

Suður-kóreski landsliðsfyrirliðinn var orðaður við tyrkneska félagið Galatasaray í síðasta mánuði, en hann hefur einnig verið orðaður við Atlético Madríd, Barcelona, Manchester United og Real Madrid.
Athugasemdir
banner
banner