Vestri er þessa dagana að styrkja sig fyrir átökin sem bíða liðsins í Inkasso-deildinni á næsta ári.
Í dag var Heiðar Birnir Torleifsson ráðinn sem aðstoðarþjálfari liðsins og tekur hann við starfinu af Jóni Hálfdáni Péturssyni. Heiðar Birnir býr yfir góðri reynslu og var aðalþjálfari B71 í færeysku B-deildinni í sumar.
Heiðar hefur einnig starfað hjá Val, Dalvík/Reyni, Þrótti og KR og þá var hann yfirþjálfari Coerver Coaching hér á landi.
Þetta eru þó ekki einu jákvæðu fregnirnar sem koma frá Ísafirði í dag, því Vestri er einnig búinn að staðfesta komu Vladimir Tufegdzic frá Grindavík.
Vladimir hefur leikið á Íslandi síðustu fjögur ár og alltaf verið í efstu deild. Hann er 28 ára framherji frá Serbíu og féll hann úr Pepsi Max-deildinni með Grindavík í byrjun hausts.
Vladimir lék áður fyrir Víking R. og KA. Það verður áhugavert að sjá hvernig honum gengur með Vestra í Inkasso-deildinni.
Athugasemdir