Snorri Barón segir að Sara Sigmundsdóttir, CrossFit stjarna, hafi fengið boð um að stýra styrktaræfingu hjá Englandsmeisturum Liverpool.
Snorri var gestur í hlaðvarpsþættinum Steve Dagskrá þar sem hann sagði þá sögu.
„Það var þannig að styrktar- og þolþjálfarar þessara félaga eru alltaf með opinn huga fyrir því sem er að gerast í heiminum. Andreas Kornmayer, sem er styrktar- og þolþjálfari Liverpool, hafði samband við Heimi Hallgrímsson, fyrrum landsliðsþjálfara, og Heimir hringdi í mig."
„Kornmayer er með brennandi CrossFit áhuga og hafði séð viðtal við Söru á CNN þar sem hún var að fara yfir batarferlið sitt úr meiðslum sem hún hafði verið að vinna sig í gegnum þá. Hann heillaðist af henni sem er mjög auðvelt að gera. 'Það gæti verið gaman að henda handsprengju inn á æfingu hjá Liverpool á æfingum og fá einhverja CrossFitara til að hjálpa mér að drilla æfingarnar og setja þær upp," sagði Snorri.
„Ég spjallaði seinast við hann í gær og það er ekki búið að loka því neitt."
Kornmayer er gríðarlega fær í því sem hann gerir og starfaði hann í 15 ár hjá Bayern München áður en hann fór til Liverpool 2015.
„Hún er grjótharður Poolari," sagði Snorri jafnframt en hægt er að hlusta á þáttinn hér að neðan. Umræðan um Söru og Liverpool hefst eftir um klukkutíma í þættinum.
Athugasemdir