Víkingur R. 5 - 1 KR
1-0 Helgi Guðjónsson ('9)
2-0 Erlingur Agnarsson ('25)
2-1 Eiður Gauti Sæbjörnsson ('45+5)
3-1 Valdimar Þór Ingimundarson ('54)
4-1 Helgi Guðjónsson ('70)
5-1 Atli Þór Jónasson ('77)
1-0 Helgi Guðjónsson ('9)
2-0 Erlingur Agnarsson ('25)
2-1 Eiður Gauti Sæbjörnsson ('45+5)
3-1 Valdimar Þór Ingimundarson ('54)
4-1 Helgi Guðjónsson ('70)
5-1 Atli Þór Jónasson ('77)
Lestu um leikinn: Víkingur R. 5 - 1 KR
Víkingur R. tók á móti KR í úrslitaleik Bose-mótsins í kvöld og skoraði Helgi Guðjónsson fyrsta mark leiksins strax á níundu mínútu. Hann skallaði boltann í netið eftir góða fyrirgjöf frá Karli Friðleifi Gunnarssyni.
Það ríkti nokkuð jafnræði með liðunum í skemmtilegum slag þar sem Víkingar voru aðeins sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og tvöfaldaði Erlingur Agnarsson forystuna á 25. mínútu, skömmu eftir að Gylfi Þór Sigurðsson átti skot í innanverða stöngina. Erlingur skoraði eftir skyndisókn Víkinga þar sem Viktor Örlygur Andrason gaf laglega sendingu innfyrir á Erling sem gerði vel að koma boltanum framhjá Halldóri Snæ Georgssyni markverði KR og skora.
Stefán Árni Geirsson meiddist illa á ökkla eftir samskipti við Daníel Hafsteinsson á 32. mínútu og var hann fluttur á spítala með sjúkrabíl. Það leit út fyrir að ökklinn hafi farið illa úr lið og á eftir að koma í ljós hvort einhver bein eða liðbönd séu sködduð.
Það var miklu bætt við í uppbótartíma fyrri hálfleiks þar sem bæði lið áttu góð færi en það voru gestirnir úr Vesturbæ sem minnkuðu muninn. Eiður Gauti Sæbjörnsson gerði vel að skora eftir fyrirgjöf frá Atla Sigurjónssyni rétt fyrir leikhlé og staðan því 2-1 í hálfleik.
Í síðari hálfleik voru það reynsla og gæði sem skiluðu Víkingum þægilegum sigri í nokkuð jöfnum leik. KR-ingar komust í góðar stöður og fengu fín færi en tókst ekki að skora meira framhjá Ingvari Jónssyni markverði. Víkingar hins vegar nýttu sín færi til hins ítrasta og gerðu út um viðureignina.
Valdimar Þór Ingimundarson tvöfaldaði forystu Víkinga þegar hann var réttur maður á réttum stað innan vítateigs KR. Boltinn barst til Valdimars eftir fyrirgjöf frá vinstri kanti og skoraði hann af stuttu færi.
KR reyndi að svara fyrir sig en tókst ekki að koma boltanum í netið, þess í stað skoraði Helgi sitt annað mark í leiknum eftir klaufagang í varnarleik KR-inga sem töpuðu boltanum við eigin vítateig. Valdimar Þór gerði vel að bíða eftir Helga sem fann góða hlaupaleið og kláraði færið vel eftir að hafa fengið boltann. Staðan var þá orðin 4-1 og átti Atli Þór Jónasson eftir að bæta fimmta marki Víkinga við skömmu síðar, eftir aðra stoðsendingu frá Valdimari Þór sem var óstöðvandi í síðari hálfleiknum.
Undir lok leiks fékk Sveinn Gísli Þorkelsson seinna gula spjaldið sitt eftir samskipti við Guðmund Andra Tryggvason. Sveinn Gísli féll til jarðar en var fljótur að stökkva á lappir til að rjúka í Guðmund Andra.
Lokatölur urðu 5-1 fyrir Víking sem vinnur Bose-mótið í ár.
Athugasemdir