Þorri Mar Þórisson gæti yfirgefið KA áður en félagaskiptaglugginn lokar síðar í þessum mánuði. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net kemur framtíð Þorra til með að skýrast í þessari viku.
Vefmiðillinn 433.is segir frá því í dag að þrjú félög hafi áhuga á leikmanninum; tvö þeirra séu íslensk og eitt erlent. Valur er sagt hafa áhuga á Þorra og hefur lagt fram tilboð í leikmanninn, líkt og annað félag.
Þorri var utan hóps þegar KA spilaði gegn HK í Bestu deildinni síðasta sunnudag, en hann hefur verið ónotaður varamaður í nokkrum leikjum upp á síðkastið.
„Þorri var utan hóps, var bara ekki valinn í hópinn," sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, aðspurður út í Þorra eftir leikinn gegn HK á sunnudag.
Þorri er réttfættur bakvörður sem getur leyst bæði stöðu hægri og vinstri bakvarðar, hann verður 24 ára í ágúst og hefur verið á mála hjá KA í fjögur og hálft ár.
Hann á tvö ár eftir af samningi sínum við KA.
Athugasemdir