Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 08. nóvember 2022 16:23
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sá strax hvað stefndi í hjá Glódísi - Reif kjaft frá fyrstu æfingu
Glódís Perla Viggósdóttir.
Glódís Perla Viggósdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Anna Björk Kristjánsdóttir.
Anna Björk Kristjánsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir var gestur í hlaðvarpi hér á Fótbolta.net í gær. Adda var að leggja skóna á hilluna fyrir stuttu, en hún fór yfir feril sinn í þættinum.

Árið 2013 var hún í Stjörnunni, liði sem fór í gegnum Íslandsmótið með því að vinna alla leikina. Þetta var gríðarlega sterkt lið - augljóslega - en Adda telur að í liðinu hafi verið besta miðvarðapar sem hafi spilað saman á Íslandi á þessum tíma: Anna Björk Kristjánsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir.

Glódís er einn besti miðvörður í heimi í dag en Adda rifjaði það upp þegar hún kom í Stjörnuna frá HK fyrir tímabilið 2012, þegar hún var á 17. aldursári. Stjarnan var með eitt besta lið landsins en Glódís kom inn af krafti þrátt fyrir að vera kjúklingurinn í liðinu.

„Ég man að þegar hún er að koma til okkar þá hringir Láki (Þorlákur Árnason, þáverandi þjálfari Stjörnunnar) í mig og segir að við séum að fá ungan leikmanni úr HK, að foreldrar hennar búi úti og ég þurfi að taka hana að mér. Ég bjó í Kópavogi og í minningunni þá sótti ég hana alltaf til að fara á æfingar," sagði Adda.

„Maður sá strax bæði gæðin og svo man ég að hún byrjar fyrstu æfinguna á því að rífa kjaft. Ég var bara: 'Hvað erum við að fá hérna?' Að sama skapi var mjög gott að fá einn svona ungan leikmann sem lætur mann hafa fyrir því. Hún var mætt frá fyrstu æfingu og ætlaði að spila leikina, vinna þessa leiki. Ég er ofboðslega þakklát fyrir að hafa fengið að vera með henni í því að stíga fyrstu skrefin hér heima."

Adda tók undir það að Glódís væri einn besti miðvörður í heimi. „Hún hefur ekki átt lélegan leik með landsliðinu í mjög langan tíma. Hún er alltaf góð. Hún er örugglega topp fimm hafsent í heiminum."

Skrítið hvað Anna Björk er dottin úr landsliðsumræðunni
Adda ræddi líka um Önnu Björk sem spilar í dag með Inter á Ítalíu. „Í raun finnst mér skrítið hvað hún er dottin út úr umræðunni núna. Hún er að spila með Inter. Þetta er leikmaður sem ég myndi velja hvað fyrst í liðið mitt. Hún er með ofboðslega góðan leikskilning. Maður fattar ekki fyrr en maður spilar með henni hversu góð hún er. Mér finnst hún svipuð Mist (Edvardsdóttur), leikmaður sem staðsetur sig vel og les leikinn vel. Mér persónulega finnst skrítið að hún sé ekki í landsliðsumræðunni."

Hægt er að hlusta á allt spjallið við Öddu hér að neðan. Það er óhætt að mæla með því.
Adda fer yfir glæstan feril - Einn sigursælasti leikmaður sögunnar
Athugasemdir
banner
banner
banner