Man Utd hefur mikinn áhuga á Kvaratskhelia - Man Utd fylgdist með þremur leikmönnum Sporting - Arsenal fylgist með Retegui
   lau 12. janúar 2019 10:36
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kjarnafæðismótið: Magni lagði Völsung í hörkuleik
Kristinn Þór Rósbergsson gerði sigurmark Magna.
Kristinn Þór Rósbergsson gerði sigurmark Magna.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Völsungur hefur tapað báðum sínum leikjum.
Völsungur hefur tapað báðum sínum leikjum.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Völsungur 1 - 2 Magni
1-0 Bjarki Baldvinsson ('26)
1-1 Andri Snær Svavarsson ('32)
1-2 Kristinn Þór Rósbergsson ('68)

Það var einn leikur í Kjarnafæðismótinu fyrir norðan í gær en Völsungur og Magni áttust við í A-riðli í Boganum. Magnamenn höfðu unnið fyrstu tvo leiki sína gegn KA2 og Leikni F. og haldið hreinu í leikjunum tveimur. Völsungur hafði hins vegar aðeins leikið einn leik þar sem þeir fengu skell gegn sterku liði KA-manna þar sem lokatölur voru 8-0.

Húsvíkingar voru því staðráðnir í að sýna sitt rétta andlit og leikurinn var á köflum afar fjörugur. Jafnræði var með liðunum fyrst um sinn en Völsungur sótti meira og sýndi á tímum fína takta í uppspili þar sem hinir margreyndu Guðmundur Óli Steingrímsson og Bjarki Baldvinsson stýrðu spili Húsvíkinga eins og sannir herforingjar.

Fór svo að Völsungur braut ísinn á 14. mínútu. Fyrirliðinn Bjarki var þar að verki eftir lipurt uppspil.

Eftir þetta hresstust þó hinir svartklæddu riddarar Grýtubakkahrepps. Á 32. mínútu fengu Magnamenn aukaspyrnu úti hægra megin. Úr spyrnunni var boltanum flengt fast fyrir og virtist sem knötturinn ætlaði að fara yfir allan pakkann og aftur fyrir endamörk. Hins vegar var Andri Snær Sævarsson sem náði góðu hlaupi á fjærstöngina og hamraði boltann með vinstri upp í markvinkilinn nær og jafnaði metin fyrir Magna. Þannig stóðu leikar í hálfleik.

Leikurinn var í járnum fyrstu 20 mínúturnar í seinni hálfleik þar sem bæði lið skiptust á að bjóða upp á álitlegar sóknir. Það var síðan á 68. mínútu að Magnamenn ná góðri sókn upp vinstri kantinn og í kjölfarið kemur góð fyrirgjöf niður með jörðinni. Þar var einn á auðum sjó Kristinn Rósbergsson sem átti ekki í miklum vandræðum með að klára það færi og koma Magna í foryrstu.

Eftir markið ýttu Húsvíkingar sér framar á völlinn og skildu oft á tíðum eftir pláss sem Magnamenn náðu hins vegar ekki að nýta sér. Völsungur átti nokkur ágætis færi á því að jafna leikinn en allt kom fyrir ekki og lokatölur 1-2, Magna í vil.

Eftir leikinn er Magni með 9 stig á toppi A-riðils en þeir hafa leikið þrjá leiki í riðlinum. Völsungur hefur hins vegar tapað báðum leikjum sínum í riðlinum.

Um næstu helgi leikur Magni við KA í Boganum en Völsungur fær Þór í heimsókn. Sá leikur verður leikinn utandyra á Húsavík.
Athugasemdir
banner
banner
banner