Leikmaður Atalanta orðaður við Man Utd - Ferguson gæti farið til West Ham - Liverpool og PSG reyna við Cherki
   fös 20. desember 2024 14:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Álitsgjafar um magnað afrek Víkings - Lengsta tímabil fótboltasögunnar?
Það verða sagðar sögur um þetta lið í framtíðinni
Gríðarlega öflugt stig sótt í gær og sætið í umspilinu tryggt.
Gríðarlega öflugt stig sótt í gær og sætið í umspilinu tryggt.
Mynd: Getty Images
Byrjunarlið gærdagsins.
Byrjunarlið gærdagsins.
Mynd: Getty Images
Magnaður árangur undir stjórn Arnars.
Magnaður árangur undir stjórn Arnars.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Maður verður hreinlega að gefa sérstakt útkall á Halldór Smára fyrir að koma inn og loka þessu fyrir Víkingana'
'Maður verður hreinlega að gefa sérstakt útkall á Halldór Smára fyrir að koma inn og loka þessu fyrir Víkingana'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gísli Gottskálk sýndi mjög flotta frammistöðu í Sambandsdeidinni.
Gísli Gottskálk sýndi mjög flotta frammistöðu í Sambandsdeidinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ari fær hrós fyrir sína frammistöðu.
Ari fær hrós fyrir sína frammistöðu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Karl Friðleifur líka.
Karl Friðleifur líka.
Mynd: Getty Images
Sverrir Örn virðir fyrir sér Víkingsvöllinn úr fjölmiðlaaðstöðunni.
Sverrir Örn virðir fyrir sér Víkingsvöllinn úr fjölmiðlaaðstöðunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Páll verður mættur þegar Arnar og Óskar mætast í útsláttarkeppninni 2028.
Jóhann Páll verður mættur þegar Arnar og Óskar mætast í útsláttarkeppninni 2028.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markinu hans Ara fagnað í gær.
Markinu hans Ara fagnað í gær.
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sölvi Geir Ottesen er aðstoðarmaður Arnars Gunlaugssonar.
Sölvi Geir Ottesen er aðstoðarmaður Arnars Gunlaugssonar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur tryggði sér í gær sæti í umspili Sambandsdeildarinnar. Liðið gerði jafntefli gegn austurríska liðinu LASK á útivelli og endaði í 19. sæti af 36 í deildarkeppninni. Víkingar unnu tvo leiki og gerðu tvö jafntefli og enduðu því með átta stig. Víkingur skrifaði söguna þegar liðið vann sinn fyrsta leik í keppninni og hélt svo áfram að skrifa hana í gær

Í dag var dregið í umspilið og mun Víkingur mæta Panathinaikos í tveggja leikja einvígi þar sem sigurvegarinn fer í 16-liða úrslit keppninnar. Leikirnir fara fram 13. og 20. febrúar, um 15 mánuðum eftir að Víkingur hóf undirbúningstímabilið sitt fyrir tímabilið 2024.

Víkingar hafa unnið sér inn tæplega 5,75 milljónir evra, yfir 800 milljónir króna, fyrir árangurinn til þessa og sú upphæð á eftir að hækka þegar allt verður talið saman.

Fótbolti.net leitaði til álitsgjafa til að svara nokkrum spurningum um afrek Víkinga. Svörin má sjá hér að neðan.

Álitsgjafarnir fengu fjórar spurningar til að svara:
1. Hvað er hægt að segja um þetta afrek Víkings?
2. Taldir þú raunhæft að Víkingur yrði eitt af 24 efstu liðunum?
3. Hvað finnst þér stærst í þessu afreki Víkings?
4. Hverjar eru helstu ástæðurnar fyrir þessari velgengni?

Jóhann Páll Ástvaldsson, íþróttablaðamaður á RÚV

1) Þetta afrek Víkinga í gær er tryllt og sýnir gildi Sambandsdeildarinnar fyrir okkur minni þjóðir Evrópu.

Þetta er í raun það galið að maður er enn að ná utan um þetta. 850.960.500 íslenskar krónur. Þetta eru um það bil 28 Róbert Wessmanar inn í félagið á einu ári. Auðvitað fer eitthvað í kostnað og bónusa - en upphæðin gæti orðið enn hærri

Þessir peningar gjörbreyta landslagi íslensks fótbolta. Við erum strax farin að sjá áhrifin - Danni Hafsteins og Sveinn Margeir eru mættir frá liðinu sem vann Víking í bikarúrslitum.

Þeir eru komnir í eitthvað Yurí Gagarín dæmi eins og er. Ekkert íslenskt lið hefur verið í þessari stöðu - og mögulega ekkert lið í heimsfótboltanum. Er þetta lengsta tímabil fótboltasögunnar? Við erum að tala um að það verða 453 dagar liðnir frá því að tímabilið þeirra hófst þegar þeir spila seinni leikinn í knockout phase. Þeir mættu Val í Bose mótinu 25. nóvember 2023. Síðan þá verða liðin tvenn jól in the Arnar Gunnlaugsson household. Eðlilegt.

Seinni leikurinn í knockout er 20. febrúar 2025. Þá verða litlir 453 dagar liðnir frá upphafi tímabilsins. Þeir mættu Val í Bose á Hlíðarenda 25. nóvember 2023. Fari þeir alla leið í finalinn erum við að tala um 547 daga (0,1% líkur samkvæmt okkar mönnum í Football Meets Data!)

2) Ég man þegar ég heyrði Arnar Gunnlaugs fyrst nefna að þetta væri markmiðið þeirra. Þá hélt ég að þetta væri bara fínt markmið fyrir þá til að setja sér en væri frekar óraunhæft. Að þeir væru að hugsa þetta út frá Blikunum. Í stað þess að setja sér eitthvað markmið eins og að ná í fyrsta stigið eða sigurinn væri bara mun betra að setja sér hærra markmið.

Arnar, Víkingarnir og hópurinn trúði greinilega á þetta markmið. Ég verð að viðurkenna að ég var efins.

Það má samt alveg taka það fram að Breiðablik keppti í annarri keppni í fyrra. Þetta nýja fyrirkomulag og að fá mismunandi mótherja heima og úti breytir í raun öllu. Þá þurftu Blikarnir líka að leika á frosnu grasinu á Laugardalsvelli.

3) Þetta er svo stórt fyrir íslenskan fótbolta og sýnir okkur að þetta er hægt. Það er það stærsta. Fyrir utan auðvitað að íslenskur fótbolti tryggði sig í betra pláss í coefficient töflunni. Þetta telur fyrir alla. Betri leið fyrir íslensk lið í Evrópu, meiri peningur inn í íslenska fótboltahagkerfið og fjársterkir aðilar sjá fótboltaliðin sem enn meiri sexý kost til að styrkja.

Önnur íslensk lið hafa áður náð ágætis árangri í Evrópu - en þá var þessi leið sem Víkingar eru að fara ekki til staðar.

Við sjáum að þjóð eins og Kýpur fór með þrjú lið áfram upp úr deildakeppninni í Sambandsdeildinni. Ég held að þú getir ekki fundið einn íslenskan fótboltaáhugamann sem segir að Kýpur sé stærri fótboltaþjóð en við. En þeir hafa sett pening í þetta og metnað.

Getum við gert það? Ég held að fleiri svari játandi eftir afrek Víkinga. Í útsláttarkeppninni mega lið frá sama landi mætast. Erum við að fara að sjá Óskar Hrafn og Arnar Gunnlaugs mætast með Víking og KR í útsláttarkeppni Sambandsdeildarinnar 2028? Þetta er orðið „so you're telling me there's a chance“ dæmi. Ég verð allavega á svæðinu ef við sjáum þetta gerast.

4) Víkingar hafa sett markið afar hátt síðustu fimm árin. Leikmennirnir gerðu vinnuna inni á vellinum og eiga allt hrós skilið. Gísli Gotti, Ari Sigurpáls og Karl Friðleifur finnst mér eiga sérstakt hrós skilið fyrir frammistöðu sína.

En ég get bara ekki horft fram hjá þætti Arnars Gunnlaugssonar í þessu öllu saman. Hann hefur haft sýn og trú á þessu. Hvernig þetta lið spilar er hans smíði frá A til Ö. Ég á erfitt með að sjá einhvern annan íslenskan þjálfara en Arnar Gunnlaugsson taka nákvæmlega þennan leikmannahóp og koma þeim áfram.

Svolítið random að koma inn á það hér í lokin en maður verður hreinlega að gefa sérstakt útkall á Halldór Smára fyrir að koma inn og loka þessu fyrir Víkingana. Það var eitthvað svo proper fallegt að sjá hann taka vaktina þarna og koma Víkingum yfir línuna. Það skiptir gífurlega miklu máli að hafa Víkingshjarta í þessu öllu saman.

Sverrir Örn Einarsson, stuðningsmaður Víkings og fréttamaður á Fótbolti.net

1) Afrekið er ótrúlegt í alla staði. Blikar gerðu vel í fyrra að vera fyrsta liðið til að komast inn í aðalkeppni evrópukeppni en hér er alveg stigsmunur á. Að lýsa því er samt ekkert einfalt í augnablikinu. Þetta er allt svo draumkennt og í raun eitthvað sem maður átti ekkert endilega von á að upplifa að sjá íslenskt félagslið ná svona langt í Evrópu. En það verða sagðar sögur um þetta lið í framtíðinni svo mikið er ljóst. Sjáum hvernig lýsingarorðin verða þar.

2) Hreinskilið svar er nei. Maður sá alveg möguleika á fyrsta sigrinum og stigi jafnvel tveimur til viðbótar en að vera með örlögin í eigin höndum fyrir lokaumferðina og geta tryggt sig áfram með jafntefli var ekki eitthvað sem ég reiknaði með og hvað þá eftir að hafa tapað 4-0 á Kýpur í fyrstu umferð. Sigurinn á Cercle Brugge breytti svo öllu fyrir mig. Lið sem við áttum ekki að eiga minnstu möguleika gegn féll í valinn á Kópavogsvelli og þá fór maður að trúa. Sigurinn á Borac meitlaði þá trú svo í stein.

3) Eftir vonbrigðin í haust að missa Mjólkurbikarinn og Íslandsmeistaratitlilinn frá sér finnst mér stærst að liðið hafi rifið sig upp úr þeim öldudal tilfinningalega sem óhjákvæmilega fylgdi og “deliverað” á þessu stóra sviði svo um munaði. Sigurinn á Cercle sem var auðvitað gríðarstór og jafnteflið við LASK í gærkvöldi eru alveg á pari þar en það hefði verið auðvelt fyrir leikmenn og aðra að fara bara í frí í hausnum og slaufa þessu eftir tapið gegn Blikum..

4) Ég held að sá strúktúr sem Víkingar hafa byggt upp í kringum liðið eigi alveg sinn þátt í því. Arnar og Sölvi eru afbragðsþjálfarar en sá aðbúnaður og umgjörð sem leikmönnum er boðið uppá skilar sínu. Hver og einn einasti einstaklingur, leikmaður, þjálfari, stjórnarmaður eða annað starfsfólk sem að liðinu kemur hefur sitt hlutverk og sinnir því vel. Mórallinn er góður fyrir vikið og menn geta leyft sér að hafa gaman að því sem þeir eru að gera. Það í bland við metnaðinn sem allir sýna myndi ég telja ansi góða blöndu.

Aron Elvar Finnsson, íþróttablaðamaður á Morgunblaðinu

1) Mér leiðist aðeins þegar endalaust er talað um Evrópuævintýri, um leið og lið komast áfram úr fyrstu umferð undankeppninnar. Þetta er hins vegar sannkallað ævintýri hjá Víkingum! Það að íslenskt lið sé á leið í útsláttarkeppni í Evrópukeppni, að spila eftir áramót, er algjörlega magnað og eitthvað sem maður sá ekki endilega fram á að myndi gerast í náinni framtíð.

Það er í raun og veru ekki hægt að hrósa Víkingum nægilega mikið fyrir þetta afrek. Leikmenn, þjálfarar og allir aðrir sem standa að liðinu, hneigið ykkur.

2) Eins og ég kom kannski aðeins inn á í síðasta svari fannst mér það í raun og veru ekki raunhæft. Það var í besta falli fjarlægur draumur að sjá íslenskt lið á þessum stað. Auðvitað voru lið í deildinni sem maður vissi að væru ekkert endilega betri en Víkingur, en maður átti ekki von á því að þeir myndu ná svona úrslitum gegn liðum sem á pappír eru töluvert stærri. Mögulega blekktu úrslit Breiðabliks á síðasta ári mann aðeins, en Blikarnir voru vissulega aðeins óheppnir að fá 0 stig í sínum riðli. Þá fannst mér ég samt sem áður sjá töluverðan mun á íslenskum fótbolta og liðum í atvinnumannadeildum erlendis.

3) Það stærsta í þessu afreki er að Ísland á núna lið í útsláttarkeppni í Evrópu. Það gerir alveg ótrúlega margt fyrir íslenskan fótbolta í heild sinni. Það streyma nú fjármunir í íslenska fótboltahagkerfið og svo er þetta auðvitað algjörlega frábær auglýsing fyrir íslenskan fótbolta. Víkingar eru nú búnir að ryðja brautina og vonandi verður þetta bara árlegt héðan í frá.

4) Það er ekki hægt að svara þessari spurningu án þess að minnast á Arnar Gunnlaugsson. Fyrir mér er hann potturinn og pannan í þessu Víkingsliði, hefur algjörlega búið það til frá grunni og allir leikmenn virðast þekkja sín hlutverk fullkomlega. Ég ætla samt sem áður ekki að taka neitt frá leikmönnum liðsins, það eru þeir sem spila leikina og hafa gert það með miklum sóma í Sambandsdeildinni undanfarnar vikur.

Ágúst Orri Arnarson, íþróttablaðamaður á Vísi

1) Afrekið er risastórt. Því verður ekki lýst betur en það held ég. Þessu áttu fáir von á nema Víkingar sjálfir.

2) Nei og þeim mun síður eftir úrslit fyrsta leiksins. Ég hélt að Víkingar væru búnir að skera sér of stóran bita til að kyngja eins og Blikar í fyrra.

3) Það er erfitt að horfa framhjá seðlunum sem streyma í Fossvoginn þessa stundina. 830 milljónir tryggðar heyrðist manni síðast.

4) Víkingar hafa verið hrokafullir, á góðan hátt. Þeir hafa hagað sér eins og stórlið í lengri tíma en þeir hafa verið stórlið, og á sama tíma lagt inn vinnuna til þess að verða það. Vel að þessu afreki komnir. Allt í kringum klúbbinn hefur gjörbreyst á örfáum árum, innan sem utan vallar.

Í ár hafa þeir líka aðlagað sig að aðstæðum og undirbúið sig betur en áður hefur sést.

Gísli Gottskálk spratt ekki upp úr engu þegar Pablo Punyed meiddist. Til dæmis var Tarik Ibrahimagic ekki fenginn til liðsins af tilviljun. Góð undirbúningsvinna sem hefur leitt að þessu öllu saman.
Athugasemdir
banner