"Maður er bara fyrst og fremst vonsvikinn. Bæði að hafa tapað leiknum og svo var þetta ekki besti leikurinn af okkar hálfu," sagði Jón Sveinsson, þjálfari Fram, eftir 2-0 tap gegn Breiðablik í Úlfarsárdalnum í kvöld.
Lestu um leikinn: Fram 0 - 2 Breiðablik
"Mér fannst menn of ragir við að vera með boltann og ekki nógu hreyfanlegir án boltans. Við þurfum að koma betur stemmdir í næsta leik."
Framarar misstu mann af velli með rautt spjald í seinni hálfleiknum. Fyrst var Delphin Tshiembe ranglega rekinn af velli fyrir brot á Ísaki Snæ en eftir að Elías dómari hafði ráðfært sig við aðstoðarmenn sína breytti hann dómnum og rak Jesus Yendis í sturtu.
"Ég sá þetta ekki vel. Einhvernveginn fannst mér þetta lítið brot en þetta var langt frá mér. Þeir fá samt bæði hagnað og dauðafæri áður en aukaspyrnan er dæmd og maðurinn rekinn útaf. Mér fannst það svolítið mikið en ég er svo lélegur dómari að ég get ekki tjáð mig um það."
Allt viðtalið við Jón má sjá í spilaranum hér að ofan.