Skagamenn sluppu við fall eftir ótrúlegan endurkomusigur
Víkingur R. er Íslandsmeistari árið 2021 eftir að hafa tryggt titilinn með 2-0 sigri á Leikni R. í lokaumferð Pepsi Max-deildar karla í Víkinni í dag. ÍA bjargaði sér frá falli með einhverjum ótrúlegasta endurkomusigri sem sést hefur í efstu deild.
Það var mikil spenna fyrir þessum degi. Víkingur var með 45 stig eða einu stigi meira en Breiðablik fyrir umferðina.
Spennustigið var rétt stillt hjá Víkingum. Þeir voru töluvert betri aðilinn gegn Leiknismönnum og var í raun bara tímaspursmál hvenær markið myndi detta inn.
Það var Nikolaj Hansen sem gerði það á 30. mínútu. Kristall Máni Ingason átti fyrirgjöf inn í teiginn og þar var Hansen einn og óvaldaður og stangaði knöttinn framhjá Guy Smit.
Sex mínútum síðar kom annað mark Víkings. Hansen var arkitektinn í þetta sinn. Leiknismenn sendu boltann frá sér úr vörninni, Víkingar keyrðu á þetta, Nikolaj fékk boltann áður en hann kom honum á Erling Agnarsson og þaðan í netið.
Víkingar voru skynsamir í síðari hálfleiknum og voru ekki að taka óþarfa áhættur. Þeir lokuðu þessu örugglega, 2-0. Liðið endar með 48 stig og fyrsti deildaritill þeirra síðan 1991.
Þetta er ótrúleg saga. Kári Árnason, varnarmaður Víkings, var í stúkunni. Hann og Sölvi Geir Ottesen komu heim úr atvinnumennsku, Þeir unnu bikarinn á síðasta ári og fögnuðu svo Íslandsmeistaratitlinum saman í dag.
Liðið er einnig í undanúrslitum Mjólkurbikarsins og á góðan möguleika á að vinna tvöfalt.
Blikar í öðru sæti - Óskar Örn tryggði KR þriðja sætið
Breiðablik, eftir að hafa verið líklegt til að vinna titilinn framan af, lendir í 2. sæti. Blikar kláruðu sinn leik með sigri gegn HK á Kópavogsvelli, 3-0.
Kristinn Steindórsson kom Blikum yfir á 51. mínútu og svo kláruðu þeir Davíð Ingvarsson og Árni Vilhjálmsson dæmið undir lokin og Blikar því með 47 stig í öðru sæti. HK-ingar fallnir í Lengjudeildina. KR-ingar hafna í þriðja sæti eftir að hafa unnið Stjörnuna, 2-0. Óskar Örn Hauksson skoraði fyrra markið á 53. mínútu áður en Kristján Flóki Finnbogason gulltryggði sigurinn tæpum tuttugu mínútum síðar.
Valur var ekki teljandi vandræðum með Fylki en lokatölur í Árbæ voru 6-0. Patrick Pedersen skoraði þrennu fyrir Val. Fyrsta markið kom á 34. mínútu áður en Guðmundur Andri Tryggvason bætti við á 54. mínútu.
Pedersen sá til þess að hann myndi gera þrennu gegn Fylki. Hann gerði annað mark sitt á 66. mínútu og svo kom þriðja markið sex mínútum síðar. Guðmundur Andri og Arnór Smárason bættu við tveimur mörkum áður en flautað var til leiksloka. Valur klárar tímabilið með stæl gegn Fylki, sem er fallið í Lengjudeildina.
FH og KA gerðu 2-2 jafntefli á Greifavelli. Ólafur Guðmundsson kom gestunum yfir á 29. mínútu áður en Nökkvi Þeyr Þórisson jafnaði á 52. mínútu en tveimur mínútum síðar kom Oliver Heiðarsson gestunum yfir á nýjan leik.
Dusan Brkovic var rekinn af velli á 86. mínútu en hann fékk sitt annað gula spjald fyrir tuð. Hallgrímur Mar Steingrímsson jafnaði undir lokin. Lokatölur 2-2. FH í 6. sæti með 33 stig en KA í fjórða sæti með 40 stig.
Dramatík í Keflavík - Skagamenn lentu 2-0 undir en komu til baka og unnu
ÍA vann ótrúlegan 3-2 endurkomusigur á Keflavík. Steinar Þorsteinsson fékk upplagt tækifæri til að koma Skagamönnum yfir þegar liðið fékk vítaspyrnu á 15. mínútu en honum brást bogalistin.
Ástbjörn Þórðarson skoraði stórkostlegt mark fyrir Keflavík undir lok fyrri hálfleiks er hann lét vaða fyrir utan og upp í samskeytin og ekki bætti það stöðu Skagamanna eftir klukkutímaleik er Óttar Bjarni Guðmundsson kom boltanum í eigið net eftir fyrirgjöf Marley Blair.
Undarlegir hlutir gerðust á sjö mínútum fyrir Skagamenn, eitthvað sem væri efni í heimildarmynd jafnvel. Alex Davey minnkaði muninn á 68. mínútu og gaf þeim von, Þremur mínútum síðar jafnaði Guðmundur Tyrfingsson.
Á 75. mínútu tóku Skagamenn forystuna. Það var þvaga í teignum og var Sindri Snær Magnússon fyrstur til að átta sig og kom boltanum í netið.
Þetta reyndist sigurmark Skagamanna og þar sem HK tapaði 3-0 fyrir Blikum í Kópavogi þá heldur ÍA sér uppi í deildinni með því að vinna þrjá síðustu leikina. ÍA hafnar í 9. sæti með 21 stig og með betri markatölu en Keflavík sem er í 10. sæti. HK með 20 stig í næst neðsta sæti.
Úrslit og markaskorarar:
Stjarnan 0 - 2 KR
0-1 Óskar Örn Hauksson ('53 )
0-2 Kristján Flóki Finnbogason ('72 )
Lestu um leikinn
Víkingur R. 2 - 0 Leiknir R.
1-0 Nikolaj Andreas Hansen ('30 )
2-0 Erlingur Agnarsson ('36 )
Lestu um leikinn
Breiðablik 3 - 0 HK
1-0 Kristinn Steindórsson ('51 )
2-0 Davíð Ingvarsson ('85 )
3-0 Árni Vilhjálmsson ('89 )
Lestu um leikinn
Fylkir 0 - 6 Valur
0-1 Patrick Pedersen ('34 )
0-2 Guðmundur Andri Tryggvason ('54 )
0-3 Patrick Pedersen ('66 )
0-4 Patrick Pedersen ('72 )
0-5 Guðmundur Andri Tryggvason ('80 )
0-6 Arnór Smárason ('84 )
Lestu um leikinn
KA 2 - 2 FH
0-1 Ólafur Guðmundsson ('29 )
1-1 Nökkvi Þeyr Þórisson ('52 )
1-2 Oliver Heiðarsson ('54 )
2-2 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('90 )
Rautt spjald: Dusan Brkovic, KA ('86) Lestu um leikinn
Keflavík 2 - 3 ÍA
0-0 Steinar Þorsteinsson ('15 , misnotað víti)
1-0 Ástbjörn Þórðarson ('45 )
2-0 Óttar Bjarni Guðmundsson ('63 , sjálfsmark)
2-1 Alexander Davey ('68 )
2-2 Guðmundur Tyrfingsson ('71 )
2-3 Sindri Snær Magnússon ('75 )
Lestu um leikinn
Athugasemdir