Pep vill fá fyrrum leikmann Liverpool - Liverpool fylgist með tveimur Svíum - Grealish orðaður við Tottenham
   þri 12. nóvember 2024 20:04
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeild kvenna: Arsenal á flugi - Barca skoraði sjö
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Tveimur fyrri leikjum kvöldsins er lokið í Meistaradeild kvenna, þar sem Arsenal og Barcelona fóru með sigra af hólmi.

Arsenal heimsótti Juventus í afar eftirvæntum stórleik og var staðan 0-1 fyrir Arsenal í leikhlé.

Renée Slegers hefur farið afar vel af stað við stjórnvölinn hjá Arsenal og skiptu lærlingar hennar um gír í síðari hálfleik í Tórínó.

Frida Leonhardsen-Maanum skoraði eina markið í fyrri hálfleik en í síðari hálfleik gerði Slegers tvöfalda skiptingu á liði sínu sem átti heldur betur eftir að skila sér. Hún skipti Fridu útaf fyrir Stinu Blackstenius og þá kom Mariona Caldentey einnig inn af bekknum.

Caldentey lagði upp fyrir Blackstenius á 75. mínútu áður en Caldentey skoraði sjálf fimm mínútum síðar til að innsigla sigurinn.

Arsenal var þó ekki búið að segja sitt síðasta því Caitlin Foord átti eftir að skora fjórða og síðasta mark leiksins í glæsilegum 0-4 sigri.

Arsenal er þá í öðru sæti riðilsins með 6 stig eftir 3 umferðir, þremur stigum meira en Juventus í baráttunni um annað sætið. FC Bayern trónir á toppinum og spilar við Vålerenga í kvöld.

Barcelona fékk St. Pölten í heimsókn og komst í fimm marka forystu fyrir leikhlé, þar sem leikmenn liðsins skiptu mörkunum jafnt á milli sín.

Að leikslokum var Claudia Pina atkvæðamest allra með tvennu í 7-0 sigri, en Aitana Bonmati, Ewa Pajor, Keira Walsh, Caroline Graham Hansen og Kika Nazareth komust einnig á blað.

Barca er með 6 stig eftir 3 fyrstu umferðir D-riðils, en Manchester City á fullt hús stiga og er að spila heimaleik við Hammarby í kvöld.

Juventus 0 - 4 Arsenal
0-1 Frida Leonhardsen-Maanum ('38)
0-2 Stina Blackstenius ('75)
0-3 Mariona Caldentey ('80)
0-4 Caitlin Foord ('87)

Barcelona 7 - 0 St. Polten
1-0 Ewa Pajor ('32)
2-0 Kika Nazareth ('38)
3-0 Aitana Bonmati ('40)
4-0 Keira Walsh ('42)
5-0 Clauda Pina ('45)
6-0 Claudia Pina ('52, víti)
7-0 Caroline Graham Hansen ('87)
Athugasemdir
banner
banner