
Gunnar Heiðar Þorvaldsson og lærisveinar hans í liði Vestri naga sig í handarbökin fyrir að hafa tapað niður forystu gegn Grindavík eftir 2-2 jafntefli liðanna í Grindavík í dag. Þegar um 10 mínútur lifðu leiks var staðan 2-0 fyrir Vestra en tvö mörk á tveimur mínútum frá heimamönnum meðal annars úr umdeildri vítaspyrnu komu í veg fyrir að Vestramenn fögnuðu sigri. Er Gunnar ósáttur?
Lestu um leikinn: Grindavík 2 - 2 Vestri
„Það er alveg á hreinu, þeir fengu ágætis hjálp við að jafna frá dómaratríóinu og því miður hef ég bara aldrei séð annað eins. Þetta víti sem var dæmt á okkur hérna í lokin ég bara næ því ekki ennþá hvernig hægt var að dæma á þetta. En þetta er eitthvað sem dómarstéttin þarf að skoða og kíkja yfir. “
Fréttaritara lék forvitni á að vita hvernig Gunnar metur tímabilið sem heild nú þegar líða fer að lokum þess og hvort tímabilið sé vonbrigði eða eðlilegt skref til baka í uppbyggingu.
„Þegar ég tek við þessu korter í mót þá erum við ekki á þeim stað sem við erum í dag. Við erum orðnir virkilega flott fótboltalið og sýndum það á köflum hérna þó aðstæður hafi nú verið þokkalega erfiðar eins og oft hérna í Grindavík.“
Um framhaldið og hvort Gunnar hyggðist halda áfram þjálfun Vestra á næsta tímabili sagði Gunnar.
„Við eigum bara eftir að setjast niður og skoða það. Hvað ég ætla að gera og hvað stjórninn vill og fleira. En á meðan ég er við stjórnvölinn þá legg ég mig alltaf hundrað prósent fram og ég er mjög sáttur við þá vinnu sem hefur verið lögð í að koma þessu liði á næsta stig og mér finnst við vera það núna. Auðvitað er það of seint til þess að vera gera eitthvað í toppbaráttunni en kannski er þetta byrjunin á einhverju stærra á næsta ári.“
Sagði Gunnar Heiðar en allt viðtalið má sjá hér að ofan.
Athugasemdir