Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   lau 29. júlí 2023 16:33
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Tveir nýir leikmenn mættir til æfinga hjá FH
Viðar Ari Jónsson.
Viðar Ari Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH er laust úr félagaskiptabanni og það er nokkuð ljóst að félagið er að bæta við sig tveimur leikmönnum.

Grétar Snær Gunnarsson og Viðar Ari Jónsson eru báðir mættir á æfingu hjá FH sem er núna í gangi.

Það var sagt frá því fyrst hér á Fótbolta.net í gær að Viðar Ari væri að ganga í raðir FH. Viðar Ari er 29 ára gamall kantmaður og hefur spilað sjö A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

Viðar yfirgaf ungverska félagið Honved fyrir stuttu en hann hefur verið að æfa með Fram undanfarnar vikur. Núna er hann hins vegar að ganga í raðir FH. Viðar lék á láni hjá FH frá Brann sumarið 2018 en hann fór til Brann eftir að hafa leikið með Fjölni í efstu deild árið 2016.

Ákvæði er í samningi Viðars hjá FH að hann geti farið erlendis ef hann fær heillandi tilboð.

Grétar Snær var búinn að semja við FH fyrir nokkru síðan, en gat ekki gengið í raðir félagsins út af félagaskiptabanninu. FH kaupir hann núna frá KR eftir að banninu var aflétt.

Grétar er 26 ára og getur spilað sem bæði varnarmaður og miðjumaður. Hann hefur verið hjá KR síðan 2021. Hann gekk í raðir FH frá Haukum þegar hann var í 2. flokki og lék einn leik með liðinu í efstu deild 2016. Núna mætir hann aftur í Kaplakrika, líkt og Viðar Ari.

FH er í sjötta sæti Bestu deildarinnar með 21 stig en liðið hefur tapað þremur leikjum í röð. Liðið mætir Keflavík á útivelli á mánudaginn. Það er ljóst að þessir tveir leikmenn styrkja liðið til muna.
Athugasemdir
banner
banner
banner