Salah draumur Sáda - Man Utd og Chelsea vilja miðvörð Benfica - Gyökeres vill fylgja Amorim
   fös 30. júní 2023 11:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hallgrímur staðfestir agabannið - „Núna er málið dautt"
Hallgrímur Jónasson.
Hallgrímur Jónasson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, staðfestir í samtali við Fótbolta.net að þrír af leikmönnum liðsins hafi verið í agabanni gegn ÍBV á miðvikudaginn. Hann segir málið núna afgreitt og búið sé að leysa það.

Það kom fyrst fram í Stúkunni í gærkvöldi að Pætur Petersen, Harley Willard og Þorri Mar Þórisson hefðu verið í agabanni gegn ÍBV. Lárus Orri Sigurðsson sagði frá því.

„Þeir brutu reglur, þeir ferðuðust ekki eins og átti að ferðast úr leiknum á móti KR samkvæmt mínum heimildum fyrir norðan og brutu þar með reglu og voru ekki í hóp út af því," sagði Lárus Orri.

Hallgrímur staðfestir þetta en hann segir að leikmennirnir hafi fengið einn leik í agabann og verði því með í næsta leik.

„Þetta er mjög einfalt mál og engin dramatík af okkar hálfu. Þeir ferðuðust ekki með liðinu heim eftir leikinn gegn KR, voru eftir í Reykjavík. Þeir báðu ekki um leyfi og það er ekki í lagi," sagði Hallgrímur í samtali við Fótbolta.net.

„Ég ræddi þetta við þá og þeir skildu þetta vel. Þeir báðust afsökunar. Þeir fengu einn leik í agabann og núna er málið dautt. Ef þú ferð ekki eftir reglunum þá eru viðurlög og svo áfram gakk. Það var engin ill meining í þessu hjá þeim. Það er búið að leysa þetta mál og það er ekkert drama eða kergja. Það er bara áfram gakk."

KA hefur ekki átt tímabilið sem félagið var að vonast eftir til þessa, en liðið er sem stendur í sjötta sæti Bestu deildarinnar með 17 stig.
Athugasemdir
banner