Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 01. mars 2023 11:26
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Norskur markvörður búinn að skrifa undir hjá KR (Staðfest)
Mynd: Skjáskot - Youtube
KR er búið að ganga frá samningi við norska markvörðinn Simen Lillevik Kjellevold en þetta hefur Fótbolti.net fengið staðfest.

Hann mun spila með Vesturbæjarstórveldinu í sumar. Hann er búinn að skrifa undir og búist er við því að félagaskipti hans verði staðfest opinberlega síðar í þessari viku, mögulega á morgun.

Kjellevold kom til landsins í gær og æfði með KR-ingum. Hann tók hálfa æfingu og skrifaði svo undir samning um kvöldið. Hann mun fylla í skarðið sem Beitir Ólafsson skilur eftir sig og verður í samkeppni við Aron Snæ Friðriksson um stöðu aðalmarkvarðar.

Kjellevold er 28 ára gamall og hefur spilað í Noregi allan sinn feril. Hann á til að mynda leiki að baki með Stabæk, Kongsvinger og Strömmen en upp á síðkastið hefur hann leikið með Gorud.

Ole Martin Nesselquist, aðstoðarþjálfari KR, þekkir Kjellevold vel en hann fékk hann til Strömmen á sínum tíma.

Það má segja að það sé hefð fyrir norskum markvörðum í KR. André Hansen spilaði í KR árið 2009 en hann varð síðar landsliðsmarkvörður hjá Noregi. Beint í kjölfarið á Hansen þá mætti Lars Ivar Moldskred í markið í Vesturbænum og var í eitt tímabil. Núna er komið að Kjellevold.
Athugasemdir
banner
banner
banner