Sólveig Jóhannesdóttir Larsen og sænska félagið Örebro hafa komist að samkomulagi um riftun á samningi. Þetta staðfestir Richard Johansson, þjálfari Örebro, í samtali við Fótbolta.net.
„Já við komumst að samkomulagi um það. Hún hefur verið að glíma við meiðsli á tíma sínum hérna," sagði Johansson og bætti við: „Það var best fyrir hana að fara í endurhæfingu heima þar sem hún getur verið nær fjölskyldu sinni og vinum, og byrjað upp á nýtt."
Sólveig gekk í raðir sænska félagsins í nóvember á síðasta ári eftir að hafa leikið vel með Val í Bestu deildinni.
Sólveig hefur ekkert spilað á tímabilinu vegna meiðsla. Hún gat heldur ekki spilað með U23 landsliðinu í apríl. Hún tognaði fyrst aftan í læri og svo komu upp önnur meiðsli út frá því. Þetta eru meiðsli sem hún hefur lent í áður, en hún er ekki enn farin að hlaupa og veit ekki hvenær hún getur farið að spila aftur.
Sólveig er 22 ára og getur leyst margar stöður framarlega á vellinum. Hún er uppalin hjá Breiðabliki en hefur einnig leikið með HK/Víkingi, Fylki og Aftureldingu í efstu deild og Augnabliki í næstefstu deild.
Sólveig á þá að baki 32 leiki með yngri landsliðum Íslands og á einn skráðan A-landsleik. Sá leikur var U23 landsleikur gegn Eistlandi síðasta sumar þar sem hún skoraði fyrra mark Íslands.
Athugasemdir