Nottingham Forest er komið upp í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 2-0 sigur liðsins á Everton á City Ground í dag. Fulham og Tottenham töpuðu bæði stigum eftir að hafa hleypt inn jöfnunarmarki á lokamínútunum.
Forest er það lið sem hefur komið mest á óvart í deildinni á tímabilinu.
Liðið byrjaði tímabilið vel og hefur tekist að halda dampi en það var að mæta Everton, sem hafði gert jafntefli við Arsenal, Chelsea og Manchester City í síðustu þremur leikjum.
Sú staðreynd truflaði ekki Forest sem tók forystuna á 16. mínútu eftir geggjað samspil Chris Wood og Anthony Elanga. Langur bolti kom fram völlinn á Wood sem tók skallatennis við Elanga áður en hann skoraði ellefta mark sitt á tímabilinu.
Morgan Gibbs-White skoraði annað markið sem gerði út um leikinn eftir hræðilegan misskilning í vörn Everton. Boltinn rúllaði eftir grasinu og voru varnarmenn Everton óvissir um hver ætti að taka boltann, en það endaði með því að Elanga náði honum, kom boltanum á Woods sem síðan stakk honum inn fyrir á Gibbs-White og eftirleikurinn auðveldur.
Sigurinn var sá fimmti í röð og kemur Forest upp í annað sætið og er liðið þar með 37 stig aðeins fimm stigum frá toppnum en Everton í 16. sæti með 17 stig.
Lærisveinar Ange Postecoglou köstuðu sigrinum frá sér í 2-2 jafntefli gegn Wolves í Lundúnum.
MIkil meiðslakrísa er í vörn Tottenham og byrjaði aðeins einn hreinræktaður miðvörður inn á í dag. Hwang Hee-Chan kom Úlfunum yfir á 7. mínútu en Rodrigo Bentancur svaraði fimm mínútum síðar með öðru deildarmarki sínu.
Tottenham fékk tækifæri til að taka forystuna á 43. mínútu er Andre steig á hælinn á Brennan Johnson. Heung-Min Son, fyrirliði liðsins, tók vítaspyrnuna sem var föst en Jose Sa var löngu farinn í hornið og sá við Suður-Kóreumanninum.
Nokkrum mínútum eftir vítaspyrnuna kom Johnson heimamönnum í forystu í leiknum. Walesverjinn sendi boltann á Dejan Kulusevski sem lagði hann aftur til baka á Johnson sem skoraði.
Tottenham hélt lengi vel í forystuna en ekki nógu lengi því þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma skoraði Jörgen Strand Larsen með stórkostlegu skoti úr þröngu færi efst upp í þaknetið.
Frábært mark og Daninn að tryggja Úlfunum stig. Tottenham klárar árið án sigurs í síðustu þremur leikjum og er með 24 stig í 11. sæti en Úlfarnir eru einu sæti fyrir ofan fallsæti um áramótin með 16 stig.
Crystal Palace vann Southampton, 2-1. Tyler Dibling kom gestunum yfir á 14. mínútu en enski varnarmaðurinn Trevoh Chalobah jafnaði þegar hálftími var liðinn af leiknum.
HInn öflugi Eberechi Eze skoraði sigurmark Palace snemma í þeim síðari með föstu skoti fyrir utan teig. Glæsilegt mark hjá honum og sterkur heimasigur hjá Palace sem er með 20 stig í 15. sæti á meðan Southampton er í botnsætinu um áramótin.
Fulham gerði 2-2 jafntefli við Bournemouth á Craven Cottage.
Fulham hefur verið á fínasta skriði í síðustu leikjum og fór þetta vel af stað í dag. Raul Jimenez skoraði á 40. mínútu leiksins og fóru heimamenn sáttir inn í hálfleikinn, en Bournemouth svaraði strax í upphafi síðari hálfleiks með marki frá Evanilson.
Harry Wilson átti sterka innkomu í síðasta leik er Fulham vann Chelsea og fékk tækifæri í byrjunarliðinu í dag, sem hann nýtti með því að skora annað markið þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka.
Því miður fyrir Fulham þá var Bournemouth ekki á því að tapa síðasta leik ársins og sá Dango Outtara með laufléttri vippu undir lok leiks og þar við sat.
Bournemouth er í 6. sæti með 30 stig en Fulham í 8. sæti með 29 stig.
Crystal Palace 2 - 1 Southampton
0-1 Tyler Dibling ('14 )
1-1 Trevoh Chalobah ('31 )
2-1 Eberechi Eze ('52 )
Everton 0 - 2 Nott. Forest
0-1 Chris Wood ('15 )
0-2 Morgan Gibbs-White ('61 )
Fulham 2 - 2 Bournemouth
1-0 Raul Jimenez ('40 )
1-1 Evanilson ('51 )
2-1 Harry Wilson ('72 )
2-2 Dango Ouattara ('89 )
Tottenham 2 - 2 Wolves
0-1 Hee-Chan Hwang ('7 )
1-1 Rodrigo Bentancur ('12 )
1-1 Son Heung-Min ('43 , Misnotað víti)
2-1 Brennan Johnson ('45 )
2-2 Jorgen Strand Larsen ('87 )
Athugasemdir