Jason Daði Svanþórsson er í stuði þessa dagana en hann skoraði í sigri gegn Port Vale í D-deildinni á Englandi í dag.
Hann kom inn á þegar hálftími var til loka venjulegs leiktíma og skoraði þriðja mark liðsins í 3-0 sigri í uppbótatíma. Þetta er annað mark hans í röð en hann skoraði í 2-1 sigri liðsins gegn Harrogate á annan í jólum.
Grimsby er í 5. sæti með 37 stig eftir 23 umferðir, jafn mörg stig og Port Vale sem er í sætinu fyrir ofan en Notts County og Doncaster eru einnig með jafn mörg stig í 2. og 3. sæti.
Willum Þór Willumsson spilaði allan leikinn þegar Birmingham gerði markalaust jafntefli gegn Blackpool í ensku C-deildinni. Liðið hafði unnið fimm leiki í röð fyrir leikinn í dag.
Birmingham er á toppi deildarinnar með 49 stig, stigi á undan Wrexham en Birmingham á tvo leiki til góða. Alfons Sampsted var ekki í leikmannahópnum vegna meiðsla.
Wrexham vann Wigan 2-1 en Jón Daði Böðvarsson var ekki í leikmannahópi Wrexham en hann gæti verið búinn að spila sinn síðasta leik fyrir félagið þar sem samningur hans rennur út um áramótin.
Athugasemdir