Hér stiklum við á stóru á íslenska fótboltaárinu 2024. Glódís Perla, Benoný Breki og Víkingur náðu öll sögulegum árangri á árinu. Fótbolti.net þakkar fyrir árið sem er að líða!
MARS - Risastór fréttatilkynning bars frá Hlíðarenda þar sem tilkynnt var að Gylfi Þór Sigurðsson, besti landsliðsmaður Íslands frá upphafi, hefði gert tveggja ára samning við Val.
MARS - Albert Guðmundsson, sem var á flugi með Genoa í ítölsku A-deildinni, skoraði þrennu fyrir Ísland gegn Ísrael í umspilinu fyrir EM. Ísland vann 4-1 sigur í Búdapest en tapaði svo gegn Úkraínu í úrslitaleik í Póllandi. Albert gekk um sumarið í raðir Fiorentina.
MAÍ - Freyr Alexandersson náði á magnaðan hátt að bjarga Kortrijk frá falli úr belgísku úrvalsdeildinni en allir sérfræðingar höfðu dæmt liðið niður.
JÚNÍ -Gregg Ryder var rekinn frá KR en þá var liðið fjórum stigum fyrir ofan fallsæti. Pálmi Rafn Pálmason var ráðinn til bráðabirgða en náði ekki að bæta gengi liðsins.
JÚNÍ - Jón Dagur Þorsteinsson tryggði Íslandi 1-0 sigur gegn Englandi í vináttulandsleik á Wembley og sendi Englendinga með vont veganesti á EM.
JÚLÍ - Heimir Hallgrímsson var ráðinn landsliðsþjálfari Írlands og fær hann það verkefni að koma liðinu á HM 2026.
JÚLÍ - Ísland vann ævintýralegan 3-0 sigur gegn Þýskalandi á Laugardalsvelli og stelpurnar tryggðu sér sæti á EM sem fram fer í Sviss á komandi ári.
ÁGÚST - Arnar Grétarsson var rekinn frá Val á fyrsta degi ágústmánaðar. Túfa, Srdjan Tufegdzic, var ráðinn í hans stað. Valur var í þriðja sæti Bestu deildarinnar þegar Arnar var rekinn.
ÁGÚST - Valur varð bikarmeistari kvenna með sigri gegn Breiðabliki á Laugardalsvelli. Síðasti titill Vals með Pétur Pétursson við stjórnvölinn en eftir tímabil var tilkynnt að hann væri hættur.
ÁGÚST - Óskar Hrafn tók loks við sem aðaþjálfari KR eftir að hafa verið liðinu til aðstoðar. Upphaflega var tilkynnt að Óskar myndi taka við eftir tímabilið en þær áætlanir breyttust.
SEPTEMBER - Hallgrímur Jónasson stýrði KA til 2-0 sigurs gegn Víkingi í úrslitum Mjólkurbikarsins. KA er bikarmeistari í fyrsta skipti.
SEPTEMBER- Afturelding komst í fyrsta sinn upp í efstu deild í karlaflokki. Liðið fylgdi ÍBV upp í Bestu deildina.
OKTÓBER - Breiðablik varð Íslandsmeistari kvenna. Samantha Smith átti lykilþátt en hún hafði fyrr á tímabilinu hjálpað FHL að komast upp í Bestu deildina áður en hún skipti í Kópavoginn.
OKTÓBER - Íslenski landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir varð í 22. sæti í Ballon d'Or kjörinu, efst allra miðvarða. Glódís átti magnað ár og varð Þýskalandsmeistari sem fyrirliði Bayern München.
OKTÓBER - Vestri náði að halda sæti sínu í Bestu deildinni. HK og Fylkir féllu og þjálfarar beggja liða létu af störfum eftir tímabilið.
OKTÓBER - Benóný Breki Andrésson gerði sér lítið fyrir og skoraði fimm mörk í 7-0 sigri KR á HK. Þar með sló Benóný markametið í efstu deild. Hann gekk svo í raðir Stockport eftir tímabilið.
OKTÓBER - Besta deildin endaði með hreinum úrslitaleik þar sem Breiðablik vann Víking. Höskuldur Gunnlaugsson, sem valinn var besti maður mótsins, lyfti skildinum góða undir flóðljósunum á Víkingsvelli.
NÓVEMBER - Orri Steinn Óskarsson skoraði fyrra mark Íslands gegn Svartfjallalandi í 2-0 útisigri. Orri stimplaði sig inn sem lykilmaður í íslenska landsliðinu og skoraði þrjú mörk í Þjóðadeildinni. Þá gekk hann í raðir Real Sociedad á árinu.
NÓVEMBER - Hareide lét af störfum sem landsliðsþjálfari Íslands og verður það hlutverk nýs þjálfara að halda okkur í B-deild Þjóðadeildarinnar og gera atlögu að því að koma liðinu á HM.
DESEMBER - Sveindís Jane Jónsdóttir átti stórkostlega innkomu af bekknum hjá Wolfsburg þegar liðið vann Roma 6-1 í Meistaradeild kvenna. Sveindís kom inn á 66. mínútu þegar staðan var 2-1 og var búin að skora tveimur mínútum síðar. Hún skoraði svo aftur á 85. og 89. mínútu og innsiglaði fernuna í uppbótartíma.
DESEMBER - Víkingur náði þeim sögulega árangri að komast áfram úr deildarkeppni Sambandsdeildarinnar og liðsins bíður einvígi við Panathinaikos á nýju ári.
Athugasemdir