Vitor Pereira þjálfari Wolves vonast til að halda brasilíska sóknarleikmanninum Matheus Cunha innan félagsins enda er hann algjör lykilleikmaður fyrir Úlfana.
Cunha er afar eftirsóttur og hefur meðal annars verið orðaður við stórveldi Arsenal en hann hefur komið að 14 mörkum í 18 úrvalsdeildarleikjum það sem af er tímabils og er helsta ástæðan fyrir því að Úlfarnir eru ekki í fallsæti sem stendur.
„Ég vona að hann verði hjá okkur í langan tíma en ég skil vel að þetta er sérstakur leikmaður. Hann er virkilega hæfileikaríkur og mun fá tækifæri til að leita á önnur mið, þó ég voni að hann verði eftir hjá okkur," segir Pereira þjálfari.
„Hann er ekki bara með frábæra tæknilega getu, heldur er hann líka með frábæran persónuleika og ótrúlegt hugarfar. Þetta er leikmaður sem getur búið til mark upp úr þurru, hann er alvöru töframaður."
Athugasemdir