Salah og Van Dijk framlengja - Liverpool opið fyrir því að selja Nunez - Nkunku til Barcelona?
banner
   sun 29. desember 2024 16:30
Brynjar Ingi Erluson
Semedo enn í kast við lögin - Beitti kærustuna ofbeldi og hélt henni í gíslingu
Ruben Semedo
Ruben Semedo
Mynd: Getty Images
Ruben Semedo
Ruben Semedo
Mynd: EPA
Portúgalski miðvörðurinn Ruben Semedo hefur verið handtekinn vegna gruns um að hafa beitt kærustu sína líkamlegu ofbeldi og hafa haldið henni í gíslíngu á heimili þeirra í Lisbon. Record greinir frá.

Þessi þrítugi leikmaður hefur ítrekað komist í kast við lögin síðustu ár.

Árið 2018 var hann ákærður og braut vopnalög er hann veifaði skammbyssu á bar í Valencia og mánuði síðar framdi hann vopnað rán og frelsissvipti eiganda íbúðarinnar ásamt tveimur öðrum.

Á þessum tíma var hann á mála hjá spænska félaginu Villarreal, en samningnum var rift við leikmanninn sem sat í fangelsi í fimm mánuði áður. Tveimur árum síðar viðurkenndi hann brot sín og var gert að greiða 46 þúsund evrur í sekt auk þess sem hann var dæmdur í átta ára útlegð frá Spáni.

Þremur árum síðar var hann handtekinn grunaður um að hafa nauðgað 17 ára stúlku ásamt öðrum manni að heimili hans í Oropos í Grikklandi. Honum var sleppt lausum gegn tryggingu í því máli.

Undir lok ársins réðust þrír hettuklæddir menn á Semedo en allir voru vopnaðir kylfum. Mikið blóð var á vettvangi og var Semedo fluttur á sjúkrahús þar sem hugað var að sárum hans.

Árið 2022 var hann aftur handtekinn grunaður um að hafa gengið í skrokk á kærustu sinni í Glyfada í Aþenu. Lögreglan mætti á vettvang og lagði konan fram kæru. en nokkrum mánuðum síðar yfirgaf hann Olympiakos.

Semedo hefur flakkað á milli félaga síðan en hann hefur síðustu ár spilað í Katar með Al Duhail, Al Markhyia og er hann í dag á mála hjá Al Kohr.

Record greinir nú frá því að hann hafi enn og aftur komist í kast við lögin en hann er sakaður um að hafa beitt kærustu sína líkamlegu ofbeldi á heimili þeirra í Lisbon í Portúgal. Atvikið átti sér stað um helgina og hélt Semedo konunni í gíslíngu.

Henni tókst að flýja heimilið og á lögreglustöð í nágrenninu. Konan mætti marin og blóðug á lögreglustöðina og lagði fram kæru.

Lögreglan handtók Semedo snemma í morgun og mætir fyrir dóm á morgun.

Semedo á 3 A-landsleiki fyrir portúgalska landsliðið og er alveg morgunljóst að þeir verða ekki fleiri.
Athugasemdir
banner
banner
banner