André Onana, markvörður Manchester United, hefur fengið ráð frá fyrrum markverði félagsins sem sjálfur upplifði erfiða tíma er hann var samningsbundinn rauðu djöflunum.
Onana hefur fengið mikla gagnrýni síðan hann kom frá Inter á síðasta ári.
Þetta hefur gengið upp og ofan hjá kamerúnska landsliðsmarkverðinum en Massimo Taibi, fyrrum markvörður United, hefur gefið honum ráð fyrir framtíðina.
Taibi spilaði með United tímabilið 1999-2000 og gerði þá fræg mistök gegn Southampton er hann missti laflaust skot Matt Le Tissier í gegnum klofið á sér. Ítalinn spilaði fjóra deildarleiki áður en honum var kastað úr liðinu og kom Mark Bosnich aftur í markið.
Hann ræddi við Sun um framtíð Onana og hvað hann þarf að gera til þess að komast aftur í röð þeirra bestu.
„Ég myndi bara koma mér strax að punktinum og segja við hann: „Andre, þú ert einn besti markvörður Evrópu en þú ert að spila undir getu í ensku úrvalsdeildinni. Reyndu að loka á gagnrýni, skoða eigin tilfinningar og endurræsa þig. Ef ekkert breytist fyrir júní þá ferðu annað“,“ sagði Taibi.
„Ég held að undirmeðvitund hans finni það að umhverfið hjá United sé ekki ákjósanlegt fyrir hann eins og þegar það koma brestir í hjónabandi. Það er tilgangslaust að halda áfram. Stundum ganga hlutirnir ekki upp og þá er best að leiðir skiljast.“
„Mér finnst hann vera sterkur markvörður sem er kominn í stöðu þar sem hann getur ekki sýnt snilli sína því hann hentar ekki í enska fótboltanum. Hann hentar bara deildinni þegar það kemur að færni hans að spila boltanum og strúktúr,“ sagði Taibi.
Athugasemdir