Varnarmaðurinn goðsagnakenndi Sergio Ramos hefur verið án félags frá því að samningur hans við Sevilla rann út í sumar.
Hinn 38 ára gamli Ramos var mikilvægur hlekkur í byrjunarliði Sevilla á síðustu leiktíð og stóð sig vel með liðinu þrátt fyrir hækkandi aldur. Hann vildi ólmur halda áfram að spila í spænska boltanum en barst ekkert viðunandi tilboð frá félagi í deildinni. Hann reyndi einnig að semja við félög utan Spánar sem leika í Meistaradeildinni en fékk ekki nægilega góð samningstilboð.
Hann beið eftir góðu samningstilboði allt sumarið og haustið og hafnaði tilboðum frá Brasilíu, Mexíkó og Sádi-Arabíu.
Ramos ætlar að bjóða fram krafta sína aftur í janúarglugganum í von um að félag sem leikur á Spáni eða í Meistaradeildinni hafi samband. Ef það gerist ekki þá er líklegt að hann vilji spila í bandarísku MLS deildinni, eða ákveði að leggja skóna á hilluna.
Ramos gerði garðinn frægan með Real Madrid og spænska landsliðinu, þar sem hann var fyrirliði og lykilmaður og vann til ógrynni titla.
Athugasemdir