Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   þri 05. mars 2024 15:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Riðillinn sem við fengum hefði varla getað verið betri
Icelandair
Ísland er í flottum riðli.
Ísland er í flottum riðli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Erum í góðum riðli.
Erum í góðum riðli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Komumst beint á EM ef við lendum í fyrsta eða öðru sæti.
Komumst beint á EM ef við lendum í fyrsta eða öðru sæti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Núna fyrr í dag var dregið í riðla í undankeppni Evrópumótsins 2025 og er Ísland þar í riðli með Þýskalandi, Austurríki og Póllandi. Það má með sanni segja að okkar stelpur hafi sloppið vel og möguleikarnir séu góðir.

„Þetta er sterkur riðill eins og við var að búast, verandi í A-deild. Ég held að þetta geti orðið hörku keppni þar sem öll lið munu taka stig af öllum. Það er auðvitað mjög stutt í fyrsta leik þannig að við þurfum að halda þeirri einbeitingu sem hefur verið í síðustu gluggum. Ég tel okkur hafa fengið góðan undirbúning fyrir þessa undankeppni sem mun vonandi skila sér í góðri frammistöðu í komandi leikjum," sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, við vefsíðu KSÍ.

Ísland var dregið síðast úr þriðja styrkleikaflokki en ef liðið hefði komið upp úr kúlunni á undan þá hefði liðið okkar verið í dauðariðli með Frakklandi, Englandi og Írlandi.

Í staðinn fáum við Þýskaland sem var þriðja besta liðið í efsta styrkleikaflokki samkvæmt styrkleikalista FIFA, Austurríki sem er slakasta liðið í öðrum styrkleikaflokki og Pólland sem er slakasta liðið í fjórða styrkleikaflokki. Þetta er auðvitað erfiður riðill þar sem við erum í A-deild en möguleikarnir eru svo sannarlega góðir á að fara beint á mótið.

Ísland er fyrir ofan Austurríki á styrkleikalista FIFA; Ísland er í 15. sæti og Austurríki er í 17. sæti.

Styrkleikaflokkarnir réðust af stöðu liðanna í Þjóðadeildinni. Því var Ísland í þriðja styrkleikaflokki.

1. styrkleikaflokkur
Spánn (1. sæti á styrkleikalista FIFA)
Frakkland (3. sæti)
Þýskaland (6. sæti)
Holland (7. sæti)

2. styrkleikaflokkur
England (4. sæti)
Danmörk (13. sæti)
Ítalía (14. sæti)
Austurríki (17. sæti)

3. styrkleikaflokkur
Svíþjóð (5. sæti)
Ísland (15. sæti)
Noregur (16. sæti)
Belgía (18. sæti)

4. styrkleikaflokkur
Írland (24. sæti)
Finnland (27. sæti)
Tékkland (28. sæti)
Pólland (29. sæti)

Með því að enda í efsta eða öðru sæti í riðlinum í undankeppninni fer Ísland beint á EM og möguleikarnir eru svo sannarlega til staðar þar sem við lentum í góðum riðli. Ef við förum ekki beint á mótið þá förum við í umspil gegn liði úr C-deild og svo gegn liði úr B-deild ef við komumst í gegnum fyrsta umspilið.

Leikdagar í undankeppni EM:
Leikdagar eitt & tvö: 3. - 9. apríl
Leikdagar þrjú & fjögur: 29. maí - 4. júní
Leikdagar fimm & sex: 10. - 16. júlí
Umspil eitt: 23. - 29. október
Umspil tvö: 27. nóvember - 3. desember
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner