Endurkoma á Trafford? - Liverpool vill Eze - Pogba til Bandaríkjanna - Duran til Madríd?
banner
   lau 05. október 2024 10:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rýnt í risaleikinn - Hvar liggja styrkleikarnir?
Valur og Breiðablik mætast í risaleik í dag.
Valur og Breiðablik mætast í risaleik í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fanney Inga Birkisdóttir og Berglind Rós Ágústsdóttir.
Fanney Inga Birkisdóttir og Berglind Rós Ágústsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samantha Rose Smith.
Samantha Rose Smith.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í dag er komið að stóru stundinni; Valur og Breiðablik eigast við í eiginlegum úrslitaleik um sigur í Bestu deild kvenna, um Íslandsmeistaratitilinn.

Breiðablik er með einu stigi meira fyrir leikinn og dugir því jafntefli. Berum aðeins saman liðin fyrir stóru stundina.

Markvarslan: Valur
Bæði lið eru með landsliðsmarkvörð í rammanum; Fanney Inga Birkisdóttir stendur vaktina fyrir Val og Telma Ívarsdóttir fyrir Breiðablik. En aðalmarkvörður landsliðsins er Fanney Inga og hefur hún varla stigið feilspor frá því hún steig inn sem bæði aðalmarkvörður Vals og í landsliðinu.

Vörnin: Breiðablik
Blikar eru samkvæmt tölfræðinni með besta varnarlið deildarinnar en þær hafa fengið á sig fæst mörk, fimm færri en Valur. Ásta Eir, fyrirliði Blika, hefur stigið frábærlega inn í miðvarðastöðuna í sumar og hafa hún og Elín Helena myndað frábært par í hjartanu. Kristín Dís og Barbára Sól hafa svo leikið vel sem bakverðir fyrir Breiðablik síðustu vikur. Valsliðið er frábærlega mannað varnarlega líka og er erfitt að skilja liðin að á því svæði vallarins, sem og á öðrum svæðum.

Miðjan: Valur
Hörð samkeppni þarna líka en Valur er með Berglindi Rós og Katie Cousins inn á miðsvæðinu hjá sér. Það er erfitt að keppa við það. Og Jasmín Erla þar yfirleitt fyrir framan. Breiðablik er með Heiðu Ragney sem er einn vanmetnasti djúpi miðjumaður sem hefur spilað í efstu deild og hefur hún leikið virkilega vel á tígulmiðju Blika. Andrea Rut Bjarnadóttir og Karitas Tómasdóttir hafa jafnframt spilað mjög vel á miðsvæðinu hjá Kópavogsfélaginu í sumar en Valur hefur vinninginn með sinn mannskap á þessu svæði.

Sóknin: Breiðablik
Engin spurning, þannig séð. Eftir bikarúrslitaleikinn hefur Breiðablik verið með að meðaltali meira en fjögur mörk í leik. Samantha Smith og Agla María Albertsdóttir hafa myndað eitthvað eitraðasta sóknardúó sem sést hefur í íslenskum fótbolta. Þá eru margir aðrir möguleikar í liðinu til að leysa aðrar stöður í fremstu víglínu; Birta Georgsdóttir, Vigdís Lilja Kristjánsdóttir og Katrín Ásbjörnsdóttir svo einhverjar séu nefndar. Sóknarleikur Blika hefur verið ótrúlegur síðustu vikur og það er erfitt að sjá þær ekki skora á Hlíðarenda í dag. Fanndís Friðriksdóttir fer fyrir sóknarlínu Vals og það er ekki amalegt heldur.

Lykilmenn leiksins:
Það eru stjörnur í öllum stöðum en ef maður ætti að taka einn leikmann út fyrir sviga í hvoru liði, þá eru það líklega erlendu leikmennn liðsins: Katie Cousins og Samantha Smith. Katie hefur verið tæp í aðdraganda leiksins en hún er algjör leikbreytir fyrir Val. Samantha hefur verið besti leikmaður Bestu deildarinnar frá því hún kom til Breiðabliks um mitt sumar og hefur breytt leik liðsins til hins betra.

Flautað verður til leiks á Hlíðarenda í dag klukkan 16:15 og er um að gera að skella sér á völlinn. Sláum áhorfendametið á leik í efstu deild kvenna. Ef ekki núna, þá hvenær?
Risarnir tveir slást og annar þeirra stendur uppi sem meistari
Athugasemdir
banner