Stjarnan tilkynnti rétt í þessu að Samúel Kári Friðjónsson væri búinn að skrifa undir fjögurra ára samning við félagið. Hann fær keppnisleyfi með liðinu eftir tímabilið.
„Samúel Kári er kraftmikill miðjumaður sem hefur leikið með bæði íslenska landsliðinu og sterkum erlendum félögum. Með reynslu sinni og hæfileikum er Samúel lykilleikmaður á vellinum og verður frábært að sjá hann klæðast bláu treyjunni næstu árin!" segir í tilkynningu Stjörnunnar.
„Samúel Kári er kraftmikill miðjumaður sem hefur leikið með bæði íslenska landsliðinu og sterkum erlendum félögum. Með reynslu sinni og hæfileikum er Samúel lykilleikmaður á vellinum og verður frábært að sjá hann klæðast bláu treyjunni næstu árin!" segir í tilkynningu Stjörnunnar.
Samúel Kári er 28 ára, uppalinn hjá Keflavík og hefur verið erlendis frá því að kallið kom frá Reading fyrir rúmum áratug síðan. Hann lék síðast með Atromitos á Grikklandi.
Hann á að baki átta A-landsleiki og var síðast í hópnum árið 2020.
„Eftir þrettán ár í atvinnumennsku er ég hæst ánægður með að vera kominn í Stjörnuna og að allt sé klappað og klárt. Stjarnan er á mjög spennandi vegferð og leikstíll þeirra hentar mér mjög vel og hlakka ég mikið til þess að taka þátt í því og vonast til að geta nýtt reynslu mína í þetta verkefni ásamt þvi að gera atlögu á titla og Evrópu," sagði Samúel Kári við undirritun.
„Það er gríðarlega ánægjulegt að fá Samúel til liðs við okkur og við erum sannfærðir um að hann muni smellpassa inní það sem við höfum verið að gera í Garðabænum undanfarin ár en eins og flestir vita þá tókum við fyrir nokkrum árum ákvarðanir um hvernig við viljum staðsetja okkur í íslenskum fótbolta og höfum unnið markvisst að þeirri hugmyndafræði og höfum verið leiðandi í því og núna er kominn tími til að stíga næstu skref á þeirri vegferð sem við höfum verið á. Liðið okkar er frábært og það eru ákaflega spennandi tímar framundan hjá okkur í Stjörnunni,” sagði Helgi Hrannarr Jónsson sem er formaður meistaraflokks ráðs karla hjá Stjörnunni.
Athugasemdir