banner
   mán 07. nóvember 2022 15:18
Elvar Geir Magnússon
Grótta segir ekkert félag hafa haft samband vegna Brazell
Lengjudeildin
Chris Brazell.
Chris Brazell.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er Chris Brazell í viðræðum við Swansea, sem leikur í Championship-deildinni, um að koma inn í þjálfarateymi stjórans Russell Martin hjá aðalliðinu.

Brazell, sem er þrítugur Englendingur, tók við þjálfun Gróttu fyrir nýliðna leiktíð. Brazell þjálfaði hjá Norwich áður en hann kom til Íslands og tók fyrst við sem yfirþjálfari yngri flokka hjá Gróttu. Hann náði virkilega flottum árangri í sumar og endaði Grótta í þriðja sæti Lengjudeildarinnar.

Grótta hefur nú sent frá sér stutta yfirlýsingu vegna frétta þess efnis að Brazell sé í viðræðum erlendis.

„Í ljósi fréttaflutnings Fótbolta.net vill knattspyrnudeild Gróttu koma eftirfarandi á framfæri:

Chris Brazell er með samning við félagið og ekki eru fyrirhugaðar breytingar á þjálfarateymi meistaraflokks karla. Ekkert félag hefur sett sig í samband við Gróttu vegna þjálfara deildarinnar. Undirbúningur fyrir næsta tímabil er í fullum gangi hjá leikmönnum og þjálfurum og við hlökkum til næstu viku þegar okkar öfluga karlalið snýr aftur til æfinga undir stjórn sinna frábæru þjálfara.

Knattspyrnudeild Gróttu."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner