Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 08. nóvember 2022 16:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sagði sögu af Grétari Rafni - „Sýnir hvað hann er með mikið gullhjarta"
Grétar Rafn Steinsson.
Grétar Rafn Steinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grétar hér með Antonio Conte.
Grétar hér með Antonio Conte.
Mynd: Getty Images
Grétar Rafn Steinsson er í stóru starfi hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Tottenham þar sem hann starfar sem 'Performance Director'.

Sjá einnig:
Grétar Rafn segir Conte með svipað hugarfar og Lagerback

Siglfirðingurinn hefur verið að gera virkilega skemmtilega hluti eftir að skórnir fóru upp á hillu. Hann starfaði fyrir Fleetwood Town sem yfirmaður fótboltamála og var í stóru starfi hjá Everton áður en hann tók til starfa hjá Tottenham þar sem hann vinnur náið með Fabio Paratici, sem er yfirmaður fótboltamála hjá félaginu.

Rætt var aðeins um Grétar Rafn í hlaðvarpinu Enski boltinn í gær og sagði Helgi Jean Claessen, sem stýrir Hæhæ hlaðvarpinu, frá skemmtilegri sögu af Grétari.

„Vinur minn spurði hvort ég gæti hjálpað hjónunum sem bjuggu við hliðina á honum að bera einn skáp. Ég ákvað að fara þarna en það kemur í ljós að þessi skápur er bara búslóð úr þriggja hæða húsi. Ég fer að hjálpa þeim. Þetta eru eldri hjón. Við erum gjörsamlega undirmönnuð. Ég fer í þetta og fer að hjálpa. Ég klemmi mig á einhverjum skáp. Svo kemur félagi minn og segist vera seinn á fund. Við vorum ekki einu sinni hálfnuð. Ég er grínlaust í svona þrjá tíma að flytja með þessu fólki. Ég var alveg bugaður eftir það," sagði Helgi.

„Þá kemur í ljós að þetta var hús sem Grétar Rafn átti. Félagi minn hringir og spyr hvaða félagi ég haldi með í enska. Ég segi 'Liverpool'. Svo líða tvær vikur og þá er ég kominn með áritaða treyju frá 2013/14 liðinu sem vann næstum því. Það voru allir leikmennirnir búnir að árita hana; Suarez, Gerrard og allir. Ég held ég fengi ekkert nema marinn putta en hann hefur sennilega gefið mér 10 þúsund pund (mögulegt andvirði treyjunnar)."

„Ég hef heyrt frá félaga mínum að Grétar sé rosalegur, hann sé járn karakter. Ég hef aldrei hitt hann... en þetta sýnir hvað hann er með mikið gullhjarta. Takk fyrir mig."

Helgi sagði að treyjan væri ekki enn komin í ramma en hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni hér fyrir neðan.
Enski boltinn - Hæhæ tvíeykið gerir upp stórleikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner