banner
   sun 13. nóvember 2022 06:00
Brynjar Ingi Erluson
„Enginn tilgangur að vera með VAR ef þeir ætla ekki að nota það"
Steve Davis
Steve Davis
Mynd: Getty Images
Steve Davis, bráðabirgðastjóri Wolves, segir að enska úrvalsdeildin verði að komast að því hvort það sé vilji að halda VAR í deildinni, en hann gagnrýndi dómgæsluna eftir 2-0 tapið gegn Arsenal í gær.

Wolves spilaði skipulagðan varnarleik í gær og náði að halda Arsenal ágætlega í skefjum en undir lok fyrri hálfleiks vildu Úlfarnir fá vítaspyrnu er Goncalo Guedes féll í teignum eftir viðskipti sín við William Saliba.

Því var veifað frá og engin vítaspyrna dæmd en Davis segir það óskiljanlegt að Wolves hafi ekki fengið vítaspyrnu enda hefði það breytt leiknum fyrir hans menn.

„Mér fannst við eiga góð augnablik í leiknum. Þeir voru mikið með boltann og við náðum að hægja á þeim. Skipulagið var frábært og erfitt að komast í gegnum okkur og náðum að verjast í teignum þegar við þurftum þess. Við vorum ánægðir í 0-0. Þessi ákvörðun í fyrri hálfleiknum átti að fara okkur í hag. Hann er réttstæður og þetta var brot og hann var aftasti maður þannig þetta var marktækifæri og mögulegt rautt spjald. Okkur finnst við sviknir því akkúrat núna eru þau rosalega mikilvæg.“

„Þetta breytir hugarfarinu enn meira, að verja mark sem þú áttir að fá. Ég er ekki viss um að þeir noti VAR, það er enginn tilgangur að vera með það ef þú ætlar ekki að nota það. Þeir verða að ákveða hvort þeir vilja VAR og hvort þeir þurfi að nota það,“
sagði Davis.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner