
„Ég ætla að nýta tækifærið ef það gefst," segir markvörðurinn Ingvar Jónsson en líklegt er að hann fái byrjunarliðssæti í landsleiknum gegn Slóvakíu á þriðjudag. Ingvar er samningsbundinn Start í Noregi en var lánaður til Sandnes Ulf í B-deildinni.
„Ég er í mjög góðu leikformi, tímabilið er nýbúið og ég spilaði fullt af leikjum seinni hluta tímabils. Ísland á nokkuð marga markverði sem eru að berjast um þessi þrjú sæti í landsliðshópnum. Maður þarf bara að standa sig, bæði hjá sínu félagsliði og þegar maður fær tækifæri hérna. Maður verður að sýna að maður eigi að vera í hópnum," segir Ingvar sem viðurkennir að hann hugsi mikið um EM í Frakklandi.
„Auðvitað hugsar maður mikið um þetta og það er eitt af aðalmarkmiðunum fyrir næsta ár að komast í þennan hóp."
Ingvar reiknar með því að vera aðalmarkvörður Start næsta tímabil en liðið er ekki öruggt með sæti sitt í norsku úrvalsdeildinni þar sem það hafnaði í þriðja neðsta sæti. Start þarf því að fara í umspil um laust sæti í deildinni.
„Ég er að fara til baka til Start, ég á tvö ár eftir af samningnum þar. Markvörðurinn sem er þar núna er að renna út á samning og mér var sagt að ég yrði þeirra markvörður númer eitt. Nú þarf ég bara að krossleggja fingur og vona að þeir vinni umspilið og haldi sæti sínu í efstu deild," segir Ingvar sem stóð sig vel hjá Sandnes Ulf.
„Ég átti marga góða leiki og er þokkalega sáttur við mína frammistöðu. Liðið var samt upp og niður og við vorum klaufar að fara ekki í umspilið því við erum með lið sem átti að fara upp,"
Viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir